Innlent

Loftpúðar og bílbelti björguðu ökumönnum og farþegum

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglan á Vesturlandi birti þessa mynd með færslunni.
Lögreglan á Vesturlandi birti þessa mynd með færslunni. Lögreglan á Vesturlandi
Sex umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi í síðastliðinni viku en þar af voru þrjár bílveltur þar sem ökumenn og farþegar virðast allir hafa sloppið vel frá og án teljandi meiðsla.

Lögreglan segir líknarbelgi og öryggisbelti hafa ráðið þar miklu um. Segir einnig í Facebook-færslu lögreglunnar að ökumaður í einni bílveltunni sé grunaður um að hafa verið ölvaður og undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.

Lögreglan segir einnig frá leitinni miklu að tveimur rjúpnaskyttum á Snæfellsnesi sem fundust heilar á húfi eftir vota og kalda næturvist á fjöllum. Frétti lögreglan af fleiri skyttum sem höfðu villst í þokunni um tíma en síðan náð áttum og komist til byggða án aðstoðar. Veður gerði veiðimönnum erfitt fyrir þar sem mikil þoka var á þessu slóðum en lögreglan vill minna veiðimenn á að hafa leiðsögutæki meðferðis í fjallaferðum og treysta ekki eingöngu á farsíma sem vilja detta út í fjalllendi og virka þá ekki lengur til leiðsagnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×