Innlent

Minnihlutinn í borginni gagnrýnir vinnubrögð vegna ráðningu borgarritara

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi. vísir/vilhelm
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina gera alvarlega athugasemd við vinnubrögð borgarstjóra og meirihluta borgarráðs vegna ráðningar Stefáns Eiríkssonar sem borgarritara.

Meirihluti borgarráðs ákvað á fundi sínum í dag að ráða Stefán í stöðuna en fulltrúar minnihlutans sátu hjá við afgreiðslu málsins. Þau segja það vera vegna óviðunandi vinnubragða borgarstjóra og fulltrúa meirihlutans í málinu.

Í tilkynningu frá minnihlutanum segir að við slíka ráðningu hljóti að vera hægt að gera kröfu um vönduð vinnubrögð enda sé um að ræða eitt mikilvægasta og valdamesta embætti í borgarkerfinu. Borgarritari er einn staðgengill borgarstjóra.

„Í raun er um stjórnsýslulegt hneyksli að ræða því gengið er út frá því að fulltrúum í fjölskipuðu stjórnvaldi sé gefinn kostur á að kynna sér gögn málsins áður en ákvörðun er tekin en svo var alls ekki í þessu tilviki. Borgarstjóri virðist líta svo á að borgarráð gegni því hlutverki að stimpla ákvarðanir sem hann hefur þegar tekið.“ segir í tilkynningu.

Þau segja ráðningu Stefáns ekki hafa verið á útsendri dagskrá fundarins og að borgarráðsmenn minnihlutans hafi ekki fengið nein gögn send vegna þess fyrir fundinn.

„Á miðjum fundi fengu fulltrúar minnihlutans loks eitt eintak afhent af tillögu borgarstjóra í málinu með þeim skilaboðum að hún yrði afgreidd í lok fundar. Tillagan er fimm blaðsíður að lengd og virðist borgarstjóri hafa ætlast til þess að fulltrúar minnihlutans læsu hana samhliða öðrum málarekstri á fundinum.”

Ekki var orðið við ósk fulltrúa minnihlutans um frestun málsins til næsta fundar til að þau gætu þannig kynnt sér gögn málsins áður en ákvörðun yrði tekin.

„Slík vinnubrögð eru algerlega óviðunandi og ganga í berhögg við reglur stjórnsýsluréttar. Slík vinnubrögð eru því miður ekki einsdæmi hjá Reykjavíkurborg undir stjórn meirihluta Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×