Innlent

Stormur á Norðausturlandi fram eftir degi

Atli Ísleifsson skrifar
Búist er við stormi með meðalvindi meira en 20 metra á sekúndu við norðausturströndina fram eftir degi.
Búist er við stormi með meðalvindi meira en 20 metra á sekúndu við norðausturströndina fram eftir degi. Vísir/Auðunn
Búist er við stormi með meðalvindi meira en 20 metra á sekúndu við norðausturströndina fram eftir degi. Með þessu fylgir talsverð ofanhríð og skafrenningur.

„Áfram verður strekkingur á þessum slóðum einkum frá Húsavík og austur á Vopnafjörð þar sem fýkur í skafla,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Á Suður- og Vesturlandi lægir vind og verður hann hægur eftir hádegið.

„Él á víð og dreif í flestum landshlutum. Seint í dag fer að snúast til norðanáttar og myndarlegur snjókomubakki nálgast úr norðri. Í kvöld er því búist við snjókomu á öllu norðanverðu landinu og norðan strekkingur eða allhvass vindur með. Sunnanlands verður hægur vindur fram á nótt og ekki búist við úrkomu. Frost 1 til 7 stig.

Á morgun dregur smám saman úr vindi og ofnakomu. Víða fremur hægur vindur annað kvöld (innan við 10 m/s), en enn blæs með austurströndinni (rúmlega 10 m/s). Dálítil él um landið norðvestanvert og á Austurlandi en léttskýjað í öðrum landshlutum. Horfur fyrir gamlárskvöld eru því góðar um mestallt land, sérílagi miðað við hamaganginn í veðrinu síðustu daga. 

Síðan má bæta við að ekki eru nein stórátök í kortunum fyrstu dagana á nýju ári,“ segir á vef Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×