Innlent

Öll brosum við á sama tungumáli segir formaður VR

Benedikt Bóas skrifar
Ólafía Rafnsdóttir formaður VR minnir fólk á að þrátt fyrir stressið kostar kurteisi ekki neitt.
Ólafía Rafnsdóttir formaður VR minnir fólk á að þrátt fyrir stressið kostar kurteisi ekki neitt. vísir/anton
„Það þarf að virða störf verslunarfólks. Hrós og kurteisi kostar ekkert og öll brosum við á sama tungumáli,“ segir Ólafía Rafnsdóttir, formaður VR, en nú fer í hönd sá tími sem álag er hvað mest á fólk sem vinnur verslunarstörf.

Á hverjum sólarhring á starfsmaður rétt á ellefu klukkustunda hvíld. Hjá verslunarmönnum getur reynt á þessa reglu þegar atgangurinn er sem mestur fyrir jólin.

Ólafía B. Rafnsdóttir
Óheimilt er samkvæmt lögum að skipuleggja vinnu á þann hátt að vinnudagurinn sé lengri en þrettán klukkustundir. Ef ellefu klukkustunda hvíld næst ekki skal vinnuveitandi veita hana síðar.

Þannig safnast svokallaður frítökuréttur upp. Fyrir hverja klukkustund sem ellefu tíma hvíldin skerðist um öðlast starfsmaður 1,5 klukkustund í dagvinnu í frítökurétt.

Ólafía segir að VR sé vel á verði fyrir sitt fólk en kvörtunum til félagsins um vinnutíma hefur farið fækkandi á undanförnum árum.

„Það heyrist yfirleitt í okkar fólki í janúar þegar það er búið að fara yfir launaseðilinn sinn,“ segir Ólafía sem kveður breytinguna undanfarin ár vera þá að miklu fleiri séu farnir að sinna afgreiðslustörfum en áður.

„Í gamla daga var stundum bara einn að vinna og kannski myrkranna á milli. Við höfum síðustu árin fengið minna af þessum kvörtunum en minnum að sjálfsögðu okkar félagsmenn á það að virða hvíldartímann,“ segir Ólafía.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×