Innlent

Fasteignagjald á Kárahnúkavirkjun lækkar um 20 milljónir króna

Vatni er miðlað til Kárahnúkavirkjunar úr Hálslóni. Fréttablaðið/Pjetur
Vatni er miðlað til Kárahnúkavirkjunar úr Hálslóni. Fréttablaðið/Pjetur
sveitarstjórnir „Það gæti munað um 20 milljónum; að fasteignagjöldin yrðu níu milljónir króna í staðinn fyrir 28 milljónir,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, um nýjan úrskurð yfirfasteignamatsnefndar vegna Kárahnúkavirkjunar. Landsvirkjun kærði álagningu fasteignagjalda til yfirfasteignamatsnefndar. Fyrirtækið vildi að hluti vatnsréttinda yrði undanskilinn fasteignagjaldi en þeim hluta kærunnar var vísað frá. „Þannig að það er alveg ljóst að það eru öll vatnsréttindi sem falla undir þetta og svo er niðurstaðan sú að þetta skuli fara í A-flokk en ekki C-flokk og það munar um 20 milljónum í tekjur,“ útskýrir Björn og vísar í að Fljótsdalshérað vildi vatnréttindin í C-flokk þar sem álagningarprósentan er 1,65 en ekki í A-flokk þar sem álagningin er 0,5 prósent af fasteignamati. „Við álagningu fasteignagjalda 2017 mun Fljótsdalshérað leggja fasteignagjöld á framangreint samkvæmt úrskurði nefndarinnar, en áskilur sér rétt til að taka málið til endurskoðunar á síðari stigum,“ segir í samþykkt bæjarstjórnar í gær vegna málsins. Þá á að skoða stöðu og skráningu mannvirkja við Kárahnjúka, sem tengjast umræddri lóð. „Það gæti alveg komið til greina en það hefur ekki verið tekin ákvörðun um slíkt,“ svarar bæjarstjórinn aðspurður hvort vænta megi frekari málarekstrar varðandi fasteignagjöldin. – gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×