Innlent

Ók ölvaður með fimm ára dóttur sína í bílnum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. vísir/ktd
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Almenningur gat fylgst með störfum lögreglunnar í tístmaraþoni lögreglunnar í nótt. Lögreglan sagði frá öllum tilkynningum sem henni bárust á Twitter. Töluvert var um ölvunarakstur og slagsmál.

Rétt fyrir ellefu í gærkvöldi fékk lögreglan tilkynningu um aðfinnsluvert aksturslag. Skömmu síðar var bifreiðin stöðvuð og reyndist ökumaðurinn vera ölvaður og fimm ára dóttir ökumannsins var í bílnum. Að lokinni blóðtöku var maðurinn laus en fulltrúi barnaverndar kom á vettvang til að tryggja hag barnsins.

Þá var tilkynnt um slagsmál inni á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur klukkan 17 mínútur yfir 3 í nótt. Í tilkynningu var talað um að eggvopni væri beitt og þegar dyraverðir reyndu að skerast í leikinn skarst einn dyravörður á hendi. Skömmu síðar komst gerandinn undan en var handtekinn klukkan 26 mínútur yfir 3 af Sérsveit Ríkislögreglustjóra. Maðurinn var vistaður í fangageymslu vegna frekari rannsóknar málsins.

Um klukkan eitt var tilkynnt um leigubílstjóra í vandræðum í miðbænum en farþegi hafði veist að honum og slegið hann í höfuðið. Bílstjórinn var búinn að aka viðkomandi í Kópavog en þá neitaði farþeginn að greiða fyrir ferðina og fór bílstjórinn því aftur með viðkomandi í miðbæinn. Maðurinn var handtekinn og hann vistaður í fangageymslu.

Þá var skemmtistað á Höfðanum lokað vegna brots á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Á staðnum var haldið bjórkvöld og inni á staðnum reyndist fjöldi fólks undir aldri sem hafði fengið afgreitt áfengi. Staðurinn var rýmdur og honum lokað í kjölfarið.

Lögreglunni bárust þrjár tilkynningar um heimilisofbeldi og líkamsárás, tvær í Hafnarfirði og eina í Árbæ. Í tveimur tilfellum voru gerendur handteknir og vistaðir í fangageymslu við rannsókn málsins en í einu þeirra var gerandi farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði og fannst ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×