Innlent

Unglingur festi hönd í stubbahúsi og beljur stöðvuðu umferð

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Tístmaraþon lögreglunnar fór fram í gærkvöldi og nótt.
Tístmaraþon lögreglunnar fór fram í gærkvöldi og nótt. Myndvinnsla/Garðar
Tístmaraþon lögreglunnar stóð yfir í gærkvöldi og nótt en tilgangurinn með maraþoninu var að veita almenningi innsýn í starfsemi lögreglunnar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Norðurlandi eystra og lögreglan á Suðurnesjum tóku þátt.

Beljur stöðvuðu umferð

Ljóst var að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt en ef rennt er yfir tíst næturinnar má sjá ýmislegt forvitnilegt.

Sum tíst voru bráðskemmtileg og sum hver nokkuð spaugileg. Til að mynda var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt um sexleytið í gær að sex beljur stæðu á Suðurlandsvegi og stöðvuðu alla umferð. Lögreglan sagði í tísti sínu að þær væru „blessunarlega í næsta umdæmi í austur,“ og því ekki á könnu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að hafa afskipti af kúnum.

Unglingur festi hönd sína í stubbahúsi

Klukkan hálf sjö í gærkvöldi barst lögreglunni tilkynning um mann, eða öllu heldur „góðkunningja lögreglunnar“ sem mældi göturnar með málverk undir hendi. Ekki liggur fyrir hvort lögreglan hafi sinnt útkallinu.

Þá var lögreglunni tilkynnt um ungling sem festi hönd sína í stubbahúsi eftir að hafa gert tilraun til þess að næla sér í sígarettu. Lögreglan fór á staðinn og tókst að ná hendi unglingsins lausri.

Seint í gærkvöldi barst tilkynning um „ákafan predikara“ sem flutti trúarlegan boðskap við lítinn fögnuð gesta í miðborginni.

Þótt mörg tístanna hafi verið kostuleg var einnig talsvert um útköll vegna ofbeldis, ölvunar, fíkniefna og slysa. Maður féll milli hæða á skemmtistað í nótt en meiðsl hans reyndust ekki eins alvarleg og talið var í fyrstu. Þá var lögreglan kölluð til vegna hópslagsmála í miðborginni í gærkvöldi. Einnig bárust lögreglunni fimm tilkynningar vegna heimilisofbeldis. 



Hér fyrir neðan má sjá hápunkta tístmaraþoni lögreglunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×