Handbolti

Hanning: Staða okkar gagnvart Degi mjög þröng

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bob Hanning og Dagur Sigurðsson fallast í faðma. Þeir hafa verið samstarfsmenn síðan 2009.
Bob Hanning og Dagur Sigurðsson fallast í faðma. Þeir hafa verið samstarfsmenn síðan 2009. Vísir/Getty
Bob Hanning, varaforseti þýska handknattleikssambandsins, segir að staða þess gagnvart Degi Sigurðssyni hafi verið erfið.

Dagur ákvað að segja upp samningi sínum við þýska sambandið og hættir sem landsliðsþjálfari eftir HM í Frakklandi. Dagur hefur verið sterklega orðaður við þjálfarastarf landsliðs Japans og er talið að hann muni stýra því fram yfir Ólympíuleikana í Tókýó árið 2020.

Hanning var gestur í morgunþætti á þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF í morgun og sagði þá að Dagur hefði haft persónulegar ástæður fyrir því að hætta nú. Myndband af viðtalinu má sjá hér.

„Hann hefur persónulegar ástæður fyrir því að hafa valið sér aðra leið í lífinu á þessum tímapunkti,“ sagði Hanning í viðtalinu.

„Ef maður væri að keppa við stór félög eins og Veszprem og Barcelona þá hefði maður kannski möguleika á að berjast fyrir honum,“ sagði Hanning.

„En þegar maður þarf að stilla sér upp á móti persónulegum aðstæðum þá er það erfitt. Möguleikar okkar voru mjög takmarkaðir.“

Hanning vill fá þjálfara sem getur tekið upp þráðinn frá Degi. Christian Prokop, þjálfari Leipzig og Markus Baur, þjálfari Stuttgart, hafa verið orðaðir við starfið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×