Handbolti

Dagur hættir með þýska landsliðið og tekur við Japan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson ætlar að breyta til í sumar.
Dagur Sigurðsson ætlar að breyta til í sumar. Vísir/Getty
Dagur Sigurðsson mun stýra þýska handboltalandsliðinu í síðasta sinn á HM í Frakklandi í byrjun næsta árs. Dagur hefur ákveðið að taka við japanska landsliðinu í sumar.

Þýska handboltasambandið segir frá þessum vistaskiptum íslenska þjálfarans í frétt á heimasíðu sinni þar sem menn þar á bæ harma það að Dagur vilji ekki halda áfram með þýska liðið. Dagur mun nýta sér uppsagnarákvæði í samningi sínum í sumar.

Dagur gerði Þýskaland að Evrópumeisturum í janúar og undir hans stjórn vann liðið brons á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst.

Það er staðfest í fréttinni að Dagur sé í viðræðum við japanska handboltalandsliðið um að taka við liðinu og undirbúa það fyrir Ólympíuleikana 2020 þar sem Japanir eru á heimavelli.

HM í Frakklandi 2017 verður því fjórða og síðasta stórmót Dags með þýska liðið. Hann tók við liðinu 1. september 2014 og stýrði því fyrst á HM í Katar. Þegar Dagur tók við þá var stóra markmiðið að vinna til verðlaun á ÓL í Tókýó 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×