Handbolti

Bob Hanning: Dagur breytti hugsunarhættinum í þýskum handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson með Evrópumeistarabikarinn í janúar.
Dagur Sigurðsson með Evrópumeistarabikarinn í janúar. Vísir/Getty
Bob Hanning, varaforseti þýska handboltasambandsins, talar vel um Dag Sigurðsson í fréttinni um að íslenski þjálfarinn hafi ákveðið að hætta sem þjálfari þýska handboltalandsliðið eftir HM í Frakklandi.

Bob Hanning og Dagur þekkjast vel en þeir unnu áður saman þegar Dagur þjálfaði Füchse Berlin frá 2009 til 2015.

„Dagur breytti hugsunarhættinum í þýskum handbolta og sú breyting er komin til að vera,“ sagði Bob Hanning í viðtali við heimasíðu þýska handboltasambandsins.

„Þetta er hans mesta afrek með liðið auk þess að vinna Evrópumeistaratitilinn og Ólympíubrons,“ sagði Hanning.

„Hann hefur frá árinu 2014 byggt upp grunninn að liði sem á bjarta framtíð fyrir sér. Þetta gerði Dagur með hjálp frá þýsku deildinni sem hefur einnig vaxið gríðarlega á þessum tíma,“ sagði Hanning.

„Allir sem koma að liðinu vita nú hver staðan er. Nú snýst þetta allt um að undirbúa sig og standa sig vel á HM. Það hlýtur að vera markmið allra að ná að kveðja Dag eins veg og hægt er og halda um leið áfram uppbygginu þýsks handbolta,“ sagði Hanning.

Bob Hanning segir að sambandið ætli ekki að flýta sér við að finna eftirmann Dags Sigurðssonar heldur að vanda þá vinnu. „Við munum ákveða það rólegir og yfirvegaðir,“ en næstu keppnisleikir eftir HM eru á móti Slóveníu í maí 2017.


Tengdar fréttir

Er arftaki Dags fundinn?

Þýskir fjölmiðlar segja að hinn 37 ára Christian Prokop verði næsti þjálfari þýska landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×