Innlent

Tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga sautján ára stúlku

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hótaði maðurinn því að raka af henni hárið ef stúlkan veitti honum ekki munnmök og hélt ákærði um höfuð hennar.
Hótaði maðurinn því að raka af henni hárið ef stúlkan veitti honum ekki munnmök og hélt ákærði um höfuð hennar. Myndvinnsla/Garðar
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Martein Jóhannsson í tveggja ára og sex mánaða fangelsi fyrir nauðgun en stúlkan var 17 ára þegar brotið var framið.

Brotið var framið í íbúð í Reykjavík í september 2014. Var Marteinn sakfelldur fyrir að hafa kynferðismök gegn vilja stúlkunnar með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung en Marteinn þvingaði hana til að hafa við sig munnmök. Hótaði hann því að raka af henni hárið ef hún veitti honum ekki munnmök og hélt ákærði um höfuð hennar og ýtti henni að getnaðarlim sínum.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að umrætt kvöld hafi stúlkan verið að aka bílaleigubíl með vinum sínum þegar Marteinn hringdi í hana og skipaði henni að skila bílnum. Fór hún þangað, ræddi við hann og skilaði bíllyklunum.

Vinir stúlkunnar komu þá inn í íbúðina. Réðist þá Marteinn á annan þeirra. Eftir slagsmálin kenndi Marteinn stúlkunni um að hafa komið með vini sína inn í íbúðina. Fór hann inn á baðherbergi, sótti rakvél og hótaði stúlkunni.

„Þá hefði ákærði sagt við hana að ef hún vildi að hann yrði glaður yrði hún að sjúga hann. Hún hefði neitað því en hann hefði þá haldið uppi rakvélinni og sagst myndu raka af henni hárið ef hún gerði það ekki,“ líkt og segir í dómi héraðsdóms.

Neitaði sök en þótti ekki samkvæmur sjálfum sér í lýsingum á atvikum

Hún kvaðst margoft hafa gefið honum til kynna að hún vildi ekki þessi samskipti og að Marteinn hefði haldið höfði hennar þannig að hún hefði ekki getað losað það. Hún hefði hætt þegar hann losaði takið.

Marteinn neitaði sök og taldi sig hafa haft kynferðismök við stúlkuna með samþykki hennar og að hennar frumkvæði. Marteinn og stúlkan voru ein til frásagnar af því sem átti sér stað. Við dóm sinn leit héraðsdómur til þess að framburður stúlkunnar hafi verið á einn veg og hafi jafnframt fengið stuðning vitna. Þá hafi Marteinn ekki verð samkvæmur sjálfum sér í lýsingum á atvikum.

„Er það niðurstaða dómsins að leggja beri frásögn brotaþola til grundvallar í málinu, en hafna framburði ákærða sem ótrúverðugum. Þykir sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi þvingað brotaþola til kynferðismaka með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, eins og lýst er í ákæru,“ segir í dómi héraðsdóms.

Marteinn á sér nokkra brotasögu og var hann dæmdur tveggja og hálfs árs fangelsi en „brot ákærða var til þess fallið að valda brotaþola mikilli andlegri vanlíðan, ekki síst í ljósi ungs aldurs hennar. Af framburði stúlkunnar fyrir dóminum þykir jafnframt verða ráðið að verknaðurinn hafi fengið mjög á hana,“ líkt og segir í dómi héraðsdóms.

Þarf Marteinn einnig að greiða stúlkunnu eina milljón króna í miskabætur auk málsvarnarlauna og þóknun réttargæslumanns stúlkynnar, alls 1.330.985 krónur.

Dóm héraðsdóms má sjá hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×