Innlent

Sjá merki um mansal samhliða auknu vændi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Framboð vændis virðist vera að aukast og grunur um mansal eykst samhliða því. Margir þeirra sem gera sig út í vændi segjast sendir hingað til lands en vilja ekki segja hver sendi þá.
Framboð vændis virðist vera að aukast og grunur um mansal eykst samhliða því. Margir þeirra sem gera sig út í vændi segjast sendir hingað til lands en vilja ekki segja hver sendi þá. vísir/getty
Lögreglumaður segir margt benda til þess að framboð vændis á Íslandi sé að aukast allverulega. Það sést meðal annars á mikilli virkni á auglýsingasíðunni Backpage. Undanfarna viku hafa þrettán einstaklingar á Íslandi auglýst vændisþjónustu á vefsíðunni en lögregla fékk nýlega fregnir af því að þar hafi verið sett upp sérstök undirsíða fyrir Ísland.

Síðan er bandarísk og hefur lengi verið umdeild þar í landi þar sem vændisauglýsingar eru algengar á síðunni. Forstjóri Backpage, Carl Ferrer, var handtekinn í Bandaríkjunum í síðustu viku vegna gruns um mansal.

Snorri Birgisson, yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar
„Maður átti ekkert sérstaklega von á að við yrðum með undirsíðu en nú erum við komin með síðu þarna undir þar sem hafa verið virkar auglýsingar og mikið af uppfærslum upp á síðkastið,“ segir Snorri Birgisson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Snorri segir fjölgun ferðamanna sem sækja Ísland heim eiga þátt í auknu framboði vændis. Það sé þó ekki eini þátturinn heldur hafi það einnig áhrif að fleiri Íslendingar flytji heim frá útlöndum sem og að fleiri útlendingar setjist hér að. „Þetta helst í hendur við aukna fólksfjölgun á landinu almennt,“ segir Snorri.

Skýrt dæmi um aukninguna segir Snorri mega sjá á vefsíðu sambærilegri við Backpage. Þar hafi verið 34 virkar auglýsingar fyrir ári en nú séu þær rúmlega hundrað.

Snorri segir lögreglu hafa brugðist við auglýsingunum með því að ræða við þá einstaklinga sem auglýsi vændi. Upplýsi þá um íslenska löggjöf og að refsivert sé að kaupa vændi. Þá sé þeim einstaklingum boðin aðstoð lögreglu séu þeir fórnarlömb mansals. Þó hafi enginn þegið slíkt boð til þessa.

„Eins og staðan er núna þá er framboð á vændi að aukast alveg verulega,“ segir Snorri. Samhliða auknu framboði segir hann lögreglu verða vara við mun fleiri tilfelli þar sem grunur um mansal er til staðar. „Það helst í hendur við framboð á vændi.“

„Þetta eru í svo mörgum tilfellum einstaklingar sem vilja ekki segja okkur neitt. Við sjáum það oft þegar við ræðum við einstaklinga um ástæðu komu þeirra að þeir segjast hafa verið sendir hingað,“ segir Snorri og bætir því við að einstaklingarnir vilji ekki tjá sig um hverjir hafi sent þá. Þá vakni grunur um að ekki sé allt með felldu, viðkomandi bakki út úr samræðunum og gefi ekkert meira upp.

„Það er ákveðinn grunur í þessum málum um að þessir einstaklingar séu sendir hingað,“ segir Snorri.

Hann segir lögreglu ekki hafa getað brugðist við með því að loka á síðurnar.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segist ekki hafa yfirsýn yfir það hvort fleiri sem gera sig út í vændi leiti til Stígamóta þar sem tölfræði verður ekki tekin saman fyrr en í janúar.

Hins vegar segir hún að Stígamót hafi almennt verri yfirsýn eftir að Kristínarhúsi, athvarfi fyrir vændiskonur sem komast vilja úr vændi, var lokað.

Þá segir hún það að lögregla finni fyrir auknu framboði ef til vill til marks um að lögregla sinni málaflokknum betur. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×