Erlent

6,055 bjargað undan ströndum Líbíu í dag

Samúel Karl Ólason skrifar
Flótta- og farandfólk bíður björgunar.
Flótta- og farandfólk bíður björgunar. Vísir/AFP
Strandgæsla Ítalíu bjargaði 6,055 manns undan ströndum Líbíu í dag. Níu lík fundust þegar fólki var bjargað af 39 bátum og skipum. Fólkinu var bjargað af 39 bátum og skipum. Að mestu var um að ræða uppblásna báta en einnig hafði fólki verið troðið um borð í fjögur fiskiskip.

Um 200 börnum var bjargað úr einu fiskiskipinu en þar voru um 720 manns um borð. Samkvæmt AFP fréttaveitunni voru flest börnin án fylgdar en níu þeirra voru undir fimm ára aldri.

Strandgæslan segir að flestum hafi verið bjargað um 48 kílómetrum norður af borginni Trípólí.

Í frétt BBC segir að um 132 þúsund manns hafi farið yfir Miðjarðarhafið til Ítalíu það sem af er þessu ári.

Í dag eru þrjú ár liðin frá því að 366 létu lífið þegar eldur kom upp í skipi undan ströndum ítölsku eyjunnar Lampedusa. Skipið sökk hratt en um 500 manns voru um borð. Atvikið varpaði ljósi á ferðir flótta- og farandfólks um Miðjarðarhafið og leiddi til þess að Ítalir hófu aðgerðir sínar.

Hundruðum þúsunda hefur verið bjargað síðan, en minnst ellefu þúsund hafa drukknað á þessum þremur árum. Leiðin frá Tyrklandi til Grikklands er ekki talin með í þeim tölum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×