Innlent

Hert á heimildum til hlerana

Þorgeir Helgason skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við rannsóknarstörf. Hert verður á heimildum lögreglu til þess að hlera.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu við rannsóknarstörf. Hert verður á heimildum lögreglu til þess að hlera. vísir/pjetur
Lögreglunni verður gert erfiðara fyrir að stunda símhleranir í rannsóknarskyni samkvæmt nýjum ákvæðum í sakamálalögum sem samþykkt voru á Alþingi í lok september og taka gildi um næstu áramót. Lagabreytingarnar fela í sér að þrengt hefur verið að skilyrðum sem þarf að uppfylla til að fá heimild til símhlerunar. Þannig verður sakborningi skipaður talsmaður sem gætir hagsmuna hans fyrir héraðsdómi og ábyrgð ríkissaksóknara við eftirlit með framkvæmd símhlerana verður meiri en áður var.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæsta­réttarlögmaður fagnar breyt­ingunum. „Ég tel að þetta sé til mikilla bóta, það liggur fyrir að þetta hefur á köflum verið eins og villta vestrið, þar sem nánast allar kröfur sem komið hafa frá lögreglunni hafa verið samþykktar og stimplaðar af Héraðsdómi eftirlitslaust. Það hefur enginn verið til staðar til að gæta hagsmuna þess sem er hleraður. Þess vegna er augljós réttarbót í þessum lögum og því ber að fagna lagasetningunni,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson
Lögregla og dómstólar hafa í gegnum tíðina verið harðlega gagnrýnd fyrir framkvæmd símhlerana. Felst sú gagnrýni helst í því hve gjarnir dómstólar eru á að úrskurða heimildir og hve lítið eftirlit er haft með framkvæmd símhlerunarinnar og eftirmálum hennar. Á árunum 2009 til 2013 veittu héraðsdómstólar á Íslandi lögreglu 726 sinnum heimild til símhlerana en í eingöngu fjögur skipti var kröfu lögreglu hafnað. Dómstólar urðu því við kröfum lögreglu á þessu tímabili í rúmlega 99,5 prósentum tilfella.

Símhlerun er íþyngjandi rannsóknarúrræði lögreglunnar og er því mikilvægt að þeim sem hleraðir hafa verið sé tilkynnt um það þegar aðgerð lýkur. Vilhjálmur segist þekkja mörg dæmi þess að lögreglan sinni ekki þessari tilkynningarskyldu. Hann hafi sent fyrirspurn á héraðssaksóknara til þess að fá upplýst hvaða rannsóknaraðgerðum einn umbjóðandi hans hefði sætt. Héraðssaksóknari svaraði því til að umbjóðandi Vilhjálms hefði aðeins verið til rannsóknar í því máli sem til meðferðar var. Vilhjálmur sendi því sömu fyrirspurn til ríkissaksóknara en samkvæmt svari hans hafði umbjóðandi Vilhjálms sætt símhlerun í eldra máli. Það mál var til lykta leitt í Hæstarétti og samkvæmt skráningu lögreglu hafði ekki verið tilkynnt um hlerunina.

Sakamálalögum hefur nú verið breytt á þann veg að ríkissaksóknara ber að tryggja að sá sem hefur verið hleraður fái vitneskju um það innan tólf mánaða frá því aðgerð lögreglu lauk. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×