Innlent

Sjávarútvegsráðherra keppti við grunnskólanema

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Nýtt smáforrit, Trillan, var kynnt til leiks í Íslenska sjávarklasanum í dag og í tilefni dagsins mætti Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegsráðherra, og atti kappi við grunnskólanemendur í spurningakeppni um sjávarútveginn á Íslandi. Keppnin var liður í kynningu á nýju smáforriti sem er ætlað að kynna ungmennum fyrir ólíkum hliðum þessa rótgróna en fjölbreytta atvinnuvegs. 

Nýja smáforritið er einnig aðgengilegt á heimasíðunni Trillan.is en markmið forritsins er að grunnskólanemendur kynnist sjávarútveginum og hlutverki hans í íslensku samfélagi á skemmtilegan og líflegan máta. Sjávarútvegurinn spannar mjög vítt svið og ætlunin að kveikja áhuga nemenda á ólíkum hliðum þess.

„Fyrst og fremst það sem við viljum er að fá aukinn áhuga. Ef að það skapast meiri áhugi hjá ungu fólki fyrir svona grein eins og sjávarútveginum þá mun það hafa þau áhrif að hann mun halda áfram að vaxa og dafna. Ég held að það sé vaxandi áhugi á hafinu og öllu er við kemur hafinu á Íslandi og unga fólkið er að sýna því miklu meiri áhuga en áður,“ segir Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans.

Með tilkomu heimasíðunnar og smáforritsins er bæði hægt að lesa sér til gagns og gaman sem og prófa kunnáttu sína um sjávarútveginn og atvinnugreinina á gagnvirkan og skemmtilegan hátt.

Sjávarútvegsráðherra mætti nemendum úr grunnskóla Grindavíkur og það mátti merkja örlítið stress hjá öllum keppendum.

Ráðherra hafði þó betur í keppninni en hann telur að gera megi betur í því að miðla upplýsingum um sjávarútveginn,atvinnugreinina og nýsköpun í greininni betur til ungmenna, og ein leiðin er smáforrit eins og Trillan.

„Mér lýst rosalega vel á þetta. Þetta er sniðug hugmynd til þess vegja áhuga unga fólksins á sjávarútveginum og ég held að þetta komi til með að reynast öllum, sem að ná sér í þetta app og fara leika sér í þessu, góð upplýsingaveita eða kynning á þessari atvinnugrein sem sjávarútvegurinn er,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegsráðherra

 

 

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×