Erlent

Ítölsk kona framdi sjálfsmorð vegna kynlífsmyndbands

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Líkfylgd Tiziönu var sýnd í beinni útsendingu.
Líkfylgd Tiziönu var sýnd í beinni útsendingu. Skjáskot
Fjórir menn hafa verið teknir til yfirheyrslu á Ítalíu í tengslum við sjálfsvíg konu sem barðist í marga mánuði við að fá kynlífsmyndband fjarlægt af Internetinu. Konan var 31 árs gömul og er þekkt sem Tiziana. Hún stytti sér aldur á heimili frænku sinnar á þriðjudag.

Tiziana hafði sent myndbandið til fyrrverandi kærasta síns og þriggja annarra, sem deildu því á netinu. Yfir milljón manns horfðu á myndbandið og hún varð fyrir aðkasti í kjölfarið. Þetta kemur fram á vef BBC.

Saksóknari hefur opnað á rannsókn á dauða hennar, en myndbandið komst í dreifingu á samfélagsmiðlum á borð við Facebook og Whatsapp fyrir um ári síðan. Mennirnir fjórir eru undir rannsókn fyrir ærumeiðingar.

Í kjölfar þess að myndbandið fékk dreifingu hætti Tiziana í vinnu, flutti til Toscana og hafði ætlað að breyta nafni sínu. Myndbandið elti hana þó á röndum og hefur tilvitnun í hana úr myndbandinu meðal annars verið prentuð á stuttermaboli og símahulstur til sölu. 

Í dómsmáli hlaut Tiziana „réttinn til að gleymast“ og í kjölfarið var myndbandið fjarlægt úr leitarvélum og af ýmsum síðum, þar á meðal Facebook. Hún var einnig dæmd til að borga 20 þúsund evrur í lögfræðikostnað, sem nemur um tveimur og hálfri milljón íslenskra króna. Fjölmiðlar þar í landi hafa titlað sektina hina hinstu móðgun.

Fregnir af dauða Tiziönu hafa vakið hneykslun og reiði og vakið upp umræðu um skemmandi áhrif þess að smána ungar konur. Líkfylgd Taziönu var sýnd í beinni útsendingu þar í landi. 

Fjölskylda Tiziönu hefur kallað eftir réttlæti. „Sem ríkisstjórn getum við lítið gert,“ sagði Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu. „Um er að ræða menningarlega baráttu - einnig pólitíska og samfélagslega. Við heitum að gera allt sem í okkar valdi stendur... Ofbeldi gegn konum er ekki óupprætanlegur vandi.“ 


Tengdar fréttir

14 ára stúlka kærir Facebook vegna hefndarkláms

Lögfræðingar stúlkunar segja að maður, sem einnig hefur verið kærður af stúlkunni, hafi ítrekað birt nektarmynd af stúlkunni á samfélagsmiðlinum Facebook til þess að hefna sín á henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×