Innlent

Jákvæð gagnvart ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra lagði fram á Alþingi í síðustu viku frumvarp til breytinga á stjórnarskrá.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra lagði fram á Alþingi í síðustu viku frumvarp til breytinga á stjórnarskrá. Vísir
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra lagði fram á Alþingi í síðustu viku frumvarp til breytinga á stjórnarskrá. Þar er lagt til að þrjár nýjar greinar bætist við stjórnarskrána, þ.e. um umhverfisvernd, náttúruauðlindir og þjóðaratkvæðagreiðslur að kröfu 15 prósenta kosningabærra manna.

Einblína á afmarkaðan þátt

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ræddi meðal annars stjórnarskrárbreytingar í ávarpi sínu á fundi fólksins við Norræna húsið í morgun.

„Sá ótti virðist líka ríkja að hóflegar breytingar núna útiloki róttækari skref síðar. Ágætu fundargestir. Hér hefur verið bent á þau sannindi að allir stjórnmálaflokkar vilja að kjósendur geti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög frá Alþingi,“ sagði Guðni.

Þá vísaði Guðni til stjórnarskrárfrumvarps forsætisráðherra og sérstaklega til ákvæðis er varðar þjóðaratkvæðagreiðslur.

„Kannski væri einmitt ráð að einblína núna á einn afmarkaðan þátt. Þá stjórnarbót sem lítur að beinu lýðræði og rétti fólks til að segja hug sinn milliliðalaust í mikilvægustu málum,“ sagði Guðni.

Skoða með opnum hug

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segist jákvæð fyrir þessari hugmynd.

„Ég vil bara taka vel í þessa hvatningu og held að við ættum bara að skoða það með opnum huga hvort að við gætum lokið þinginu með því að samþykkja þetta ákvæði,“ segir Oddný.

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir flokkinn mjög jákvæðan gagnvart öllum tillögunum þremur.

„Tillögurnar sem að stjórnarskrárnefndin skilaði til forsætisráðherra, þær voru samþykktar af fulltrúum allra flokka. Þannig að ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn þangað til annað kemur í ljós,“ segir Óttarr.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir þetta það ákvæði í frumvarpi forsætisráðherra sem auðveldast væri að ná samstöðu um.

„Það hefur verið ágreiningur um þröskuldana í ákvæðinu. En ég held hins vegar að það sé mikil almenn samstaða um að það er mikil þörf á þessu ákvæði. Það hefur komið fram hér í þingsal og berlega fyrir forsetakosningar. Þannig að ég ætla ekkert að útiloka það að þetta sé möguleiki,“ segir Katrín.

Andlýðræðislegur þröskuldur

Samkvæmt frumvarpinu þurfa að minnsta kosti 25 prósent kosningabærra manna að synja lögum samþykkis, til þess að þau verði felld úr gildi. Og það er einmitt þessi þröskuldur sem kemur í veg fyrir að Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, geti samþykkt ákvæðið.

„Hann er andlýðræðislegur. Hann er ekki bara ólýðræðislegur, hann er andlýðræðislegur. Hann dregur úr þátttöku. Hann hvetur til heimasetu. Hann gerir heimasetu að afstöðu. Og þá er hætt við því, eða við höfum allavega verulegar áhyggjur af því, að slíkt myndi bara vera mjög skaðlegt fyrir allt ferlið,“ segir Helgi.

Þannig að þetta gæti ekki verið áfangasigur á þessari vegferð?

„Ég allavega sé ekki að við getum útkljáð það á þeim tíma sem eftir er á þessu þingi,“ segir Helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×