Innlent

Tvær líkamsárásir í miðborg Reykjavíkur í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
ögregla hafði afskipti af fjölda ökumanna vegna gruns um ölvun við akstur.
ögregla hafði afskipti af fjölda ökumanna vegna gruns um ölvun við akstur. Vísir/Pjetur
Tilkynnt var um tvær líkamsárásir í miðborg Reykjavíkur í nótt. Í dagbók lögreglu segir að klukkan 2:10 hafi verið tilkynnt um líkamsárás í Lækjargötu þar sem ráðist hafði verið á ungan mann þar sem hann var tekinn hálstaki, kýldur ítrekað í andlitið og sparkað í hann. Árásarþolinn hugðist leita sér aðstoðar á slysadeild og hefur lögregla upplýsingar um geranda.

Skömmu síðar var svo tilkynnt um líkamsárás í Bankastræti þar sem maður var sleginn í andlitið og er hann talinn nefbrotinn. Árásarmaðurinn handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangageymslu.

Lögregla þurfti einnig að hafa afskipti af ölvuðu erlendu pari sem er sagt hafa verið til vandræða í Austurstræti, en parið var vistað í fangageymslu á meðan ástand þeirra lagast.

Skömmu fyrir miðnætti stöðvaði umferðardeild lögreglu bíl á Sæbraut við Súðarvog eftir að bifreiðin hafði verið mæld á 102 kílómetra hraða þar sem leyfður umferðarhraði er 60. „Ökumaðurinn reyndist sviptur ökuréttindum og hafði ekki öryggisbeltið spennt. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur en blés undir refsimörkum,“ segir í dagbók lögreglu.

Lögregla hafði afskipti af fjölda ökumanna vegna gruns um ölvun við akstur, meðal annars í Stakkahrauni í gærkvöldi þar sem ökumaðurinn reyndist sviptur ökuréttindum. „Ökumaðurinn blés í öndunarsýnamæli lögreglu og sýndi mælirinn  4 prómill en refsimörk eru 0,5 próm.  Ökumaðurinn var laus að lokinni sýnatöku en handtekinn skömmu síðar við Flatahraun þar sem hann lá ósjálfbjarga vegna ölvunar.  Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu meðan ástand hans lagast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×