Innlent

Ríkið tekur úr gildi yfirlýsingu um ábyrgð á innistæðum landsmanna

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Úr ræðu Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, þann 6. október 2008.
Úr ræðu Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, þann 6. október 2008.
Eftir samráð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að ekki sé tilefni til að hafa í gildi yfirlýsingu um ábyrgð ríkissjóðs á innistæðum í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi.

Yfirlýsingin var send út þann 6. október 2008 og er svohljóðandi: „Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.“

Yfirlýsingin var gefin eftir fjármálahrunið haustið 2008. Í frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur fram að innlendar innlánsstofnanir standi í dag traustum fótum hvað varðar eigið fé, fjármögnun, lausafé og jafnvægi í rekstri.

Þar segir einnig að viðamiklar breytingar hafi orðið á lagaumhverfi fjármálamarkaða á síðustu árum frá setningu neyðaralaga árið 2008, til að mynda breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki árið 2010 og breytingar á lagaumhverfi fjármálamarkaða.

Í frétt ráðuneytisins segir að áfram sé unnið að því að styrkja nauðsynlegt öryggisnet um fjármálamarkaði og fjölga úrræðum opinberra eftirlitsaðila og stjórnvalda til að grípa tímanlega inn þegar þörf krefur. Á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins sé nú unnið að innleiðingu nýs Evrópuregluverks um skilameðferð fjármálafyrirtækja og innleiðingu nýrra Evrópureglna um einistæðutryggingar sem munu styðja við regluverk um skilameðferð.

Yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem send var út í dag má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×