Innlent

Vísbendingar um misræmi hjá sýslumönnum

Snærós Sindradóttir skrifar
Ragnheiður og Ravi Rawati hyggjast ganga í hjónaband á þriðjudag en fyrst óskuðu þau eftir heimild 1. apríl síðastliðinn. Innanríkisráðuneytið sneri úrskurði Sýslumannsins í Reykjavík við og hyggst rannsaka verkferla.
Ragnheiður og Ravi Rawati hyggjast ganga í hjónaband á þriðjudag en fyrst óskuðu þau eftir heimild 1. apríl síðastliðinn. Innanríkisráðuneytið sneri úrskurði Sýslumannsins í Reykjavík við og hyggst rannsaka verkferla. Mynd/Ragnheiður
Vísbendingar eru um að misræmis gæti hjá sýslumannsembættum landsins þegar kemur að hjónavígslu íslenskra og erlendra ríkisborgara. Málið er til rannsóknar hjá innanríkisráðuneytinu og embættin hafa verið hvött til að fylgja reglum við úrvinnslu mála.

Tilefni rannsóknarinnar er ósk Ragnheiðar Guðmundsdóttur og unnusta hennar Ravi Rawat um að ganga í hjónaband en Sýslumaðurinn í Reykjavík synjaði beiðni þeirra. Innanríkisráðuneytið hefur snúið úrskurðinum við og heimilað hjónabandið en Ragnheiður berst við fjórða stigs lífhimnukrabbamein. Synjun Sýslumannsins í Reykjavík var á grundvelli þess að gögn Ravi væru ófullnægjandi. Sendiráð Indlands á Íslandi hafði þó staðfest að gögnin væru fullnægjandi.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu bárust ábendingar til ráðuneytisins sem benda til þess að misræmi sé á verklagi sýslumannsembætta. Rannsókn ráðuneytisins snýst um að fá úr því skorið hvert mat sýslumannsembætta sé á gögnum hverju sinni og málsmeðferð í hverju máli fyrir sig. Misræmið skrifist upp á starfsfólk sýslumannsembættanna, sé það á annað borð til staðar.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni á föstudag og tilkynnti að innanríkisráðuneytið hefði snúið úrskurði sýslumannsembættisins við. Í tilkynningu Ólafar kom fram að búið væri að senda sýslumönnum landsins bréf þar sem fram kemur að tilefni sé til að taka verkleg og reglur á þessu sviði til nánari skoðunar með samrýmda og góða stjórnsýslu að markmiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×