Bandaríkin vann í nótt þrefaldan sigur í úrslitahlaupi 100 metra grindarhlaups kvenna á Ólympíuleikunum í Ríó.
Brianna Rollins varð Ólympíumeistari á 12,48 sekúndum en löndur hennar Nia Ali (12,59 sekúndur) og Kristi Castlin (12,61 sekúndur) komu í næstu sætum.
Þetta er í fyrsta sinn á þessum Ólympíuleikum sem sama þjóð tekur gull, silfur og brons í sömu grein en það gerðist bara samatals tvisvar á síðustu Ólympíuleikum í London.
Þetta var ennfremur fyrstu gullverðlaun Bandaríkjanna á hlaupabrautinni á þessum Ólympíuleikum en Jamaíka hefur verið í fararbroddi í spretthlaupunum til þessa á leikunum.
Brianna Rollins er 25 ára gömul en hún vann heimsmeistaratitilinn í þessari grein á HM í Moskvu árið 2013. Hún var aftur á móti aðeins í fjórða sæti á HM í Peking í fyrra.
Hin bandaríska Kendra Harrison var fjarri góðu gammni á leikunum þrátt fyrir að hafa sett nýtt heimsmet rétt fyrir leikana. Harrison klikkaði á úrtökumótinu í Bandaríkjunum og þar tryggðu þær Brianna Rollins, Nia Ali og Kristi Castlin sér sæti í Ólympíuliðinu.
Kendra Harrison var ekki sú eina sem var forfölluð því Ólympíumeistarinn frá 2012, Sally Pearson frá Ástralíu, meiddist skömmu fyrir leikana og gat ekki tekið þátt.
