Innlent

Innanríkisráðuneytið grípur í taumana: Ragnheiður og Ravi fá að giftast

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Ragnheiður og Ravi ætla að gifta sig strax í næstu viku.
Ragnheiður og Ravi ætla að gifta sig strax í næstu viku. Mynd/Ragnheiður Guðmundsdóttir
Ragnheiður Guðmundsdóttir og unnusti hennar, Ravi Rawat, hafa fengið leyfi til að ganga í hjónaband. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafði áður synjað þeim um leyfi til að giftast en sá úrskurður var dreginn til baka í morgun, þegar Innanríkisráðuneytið sneri við úrskurði sýslumanns.

Morgunblaðið greindi frá því fyrr í mánuðinum að Ragnheiði, sem berst við fjórða stigs lífhimnukrabbamein, hefði verið synjað um leyfi til að giftast unnusta sínum, á grundvelli þess að gögn frá Indlandi væru ófullnægjandi. Sendiráð Indlands á Íslandi hafði þó staðfest að gögnin væru fullnægjandi.

„Við sóttum fyrst um að fá að gifta okkur 1. apríl. Þannig að þetta hefur tekið allan þennan tíma, að fá að giftast,“ segir Ragnheiður í samtali við Vísi.

Ravi var með tímabundið dvalar- og atvinnuleyfi en það var við það að renna út. Ljóst er því að Ravi þarf ekki að fara úr landi frá Ragnheiði á meðan hún berst við krabbameinið. „Ég vona að þetta þýði það að hann fái nú að vera hérna,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður og Ravi ætla að gifta sig strax í næstu viku. „Ravi kemur frá þannig menningu að það hefur verið rætt um hjónaband frá upphafi. En við vorum ekki að drífa okkur fyrr en að ég greindist með krabbamein og við áttuðum okkur á því að við þyrftum að vera gift ef hann ætlaði að fá að vera hjá mér í gegnum mína krabbameinsbaráttu og þyrfti ekki alltaf að fara úr landi í sex mánuði til að fá næsta atvinnu- og dvalarleyfi.“

Ragnheiður greindist með krabbamein í byrjun janúar á þessu ári. „Það var ekki nema þá sem við fórum að finna út úr því af alvöru hvernig við ættum að fara að því að gifta okkur.“

Ekki er til formlegt hjúskaparstöðuvottorð á Indlandi en móðir Ravi hafði skriflega staðfest að Ravi væri einhleypur. Sú yfirlýsing hafi svo verið vottuð af þeim yfirvöldum sem skiptu máli, meðal annars héraðsdómi á Indlandi, sýslumanni, utanríkisráðuneyti Indlands og svo loks sendiráði Indlands á Íslandi. „Einhvern veginn náði lögmaður okkar þessu í gegn, að þeir drógu ákvörðun sína til baka. Ég held að þeir hafi bara þurft aðstoð við að lesa pappírana því þeir voru lögmætir allan tímann,“ segir Ragnheiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×