Innlent

Steinunn og Freyja gagnrýna heimsókn forseta til Sólheima

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Forseti Íslands heimsótti Sólheima í dag. Fatlaðir eru ekki allir sáttir við val hans.
Forseti Íslands heimsótti Sólheima í dag. Fatlaðir eru ekki allir sáttir við val hans. Vísir
Freyja Haraldsdóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, er ekki ánægð með fyrstu opinberu heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands. Það er Steinunn Ása Þorvaldsdóttir sjónvarpskona ekki heldur.

Freyja skrifaði á Facebook að hún fengi illt í magann í hvert sinn sem hún sæi fréttir af heimsókn forsetans til Sólheima.

„Fólk í valdastöðu á að vinna gegn aðskilnaðarstefnu og útskúfun, ekki upphefja hana og mæra,“ sagði hún í færslu sinni. Í samtali við Vísi tók hún þó fram að færslan hefði fyrst og fremst verið hugsuð sem innlegg hennar í umræðuna sem verkefnastýra og ráðgjafi Tabú, samtaka fatlaðra kvenna.

Í færslunni var hún að bregðast við færslu sjónvarpskonunnar Steinunnar Ásu Þorvaldsdóttur sem furðaði sig á því að fyrsta heimsókn nýs forseta Íslands væri til Sólheima. Í færslu sinni fullyrðir hún að fatlað fólk sé sent á Sólheima án þess að það vilji endilega búa þar.

„Sólheimar eru eiginlega eins og skattaskjól, paradís fyrir túrista, nema þau geyma þar fatlað fólk en ekki peninga,“ sagði Steinunn meðal annars í færslu sinni. Freyja fagnaði hugrekki Steinunnar að þora stíga fram og segja eitthvað í þágu fatlaðra.

Freyja segist yfir höfuð vera á móti stofnunum fyrir fatlaða og harmar það að fyrsta heimsókn nýs forseta hafi verið til Sólheima.Vísir
Einkenni kúgunnar og jaðarsetningar

„Ef þú skoðar stöðu fatlaðs fólks í sögulegu ljósi þá hefur það verið þannig að það hefur verið aðgreint og stofnavistað frá upphafi,“ segir Freyja.

„Það eru engar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að þetta sé gott. Þetta er ákveðin útilokun á fötluðu fólki og kemur í veg fyrir að það geti lifað í samfélagi við aðra.“

Freyja segir Sólheima hluta af þessari sögu. Í gamla daga hafi börn verið send þangað en í dag séu það aðallega fullorðið fólk.

„Ég er alfarið á móti því að fötluðu fólki sé hrúgað einhversstaðar á einhverjum afskekktum stað. Ég geri mér alveg grein fyrir því að margir sem búa þarna núna eru ánægðir með það. Ég vona þá bara að almenningur átti sig á því að það hafði kannski ekkert val um það. Fatlað fólk lætur sér kannski lunda við það sem því er úthlutað sem er einkenni kúgunar og jaðarsetningar. Fólk sem þangað er sett hefur kannski takmarkaða hugmynd um hvað annað sé í boði. Einhver ákveðinn hópur annar en fatlaðir yrði aldrei settur í þessa stöðu.“

Forsetahjónin í Sólheimum klukkan ellefu í morgun þar sem gestgjafarnir héldu sumir hverjir á íslenskum fána enda hátíð í bæ.Vísir/GVa
Allir eiga rétt á sjálfræði

Sjálf segist Freyja vilja að fatlað fólk fái frelsi til þess að ákveða sjálft hvað því er fyrir bestu. 

„Allir eiga rétt á því að eiga sitt heimili þar sem það stjórnar sjálft. Þar sem fólk getur lifað sínu lífi. Þar sem fatlað fólk kannski býr saman en það ræður því sjálft hvernig það eyðir tíma sínum. Afstaða mín liggur ekki af persónulegum upplifunum mínum á Sólheimum heldur frekar af fræðilegri þekkingu og persónulegri reynslu minni sem fötluð kona. Það er ekki réttlætanlegt.“

Fólk mætir til Sólheima til þess að skoða fatlaða

Freyja segir einnig hafa heyrt af því að ófatlað fólk komi oft á tíðum á Sólheima til þess að skoða þar aðstæður og fólk.

„Ég veit að fólk ætlar sér ekkert að koma til þess að skoða þá sem þar búa en þetta er samt þannig að þarna mætir fólk sem er kannski í sumarfríi og kaupir brauð og annað. Það kemur til þess að skoða heimkynni fatlaðs fólks sem ræður því ekkert sjálft hvort það er þarna. Það finnst mér ekki eðlilegt. Mér finnst svoleiðis eiga að tilheyra fortíðinni.“

Stofnanir skapa kjöraðstæður fyrir ofbeldi

Freyja segist hafa kynnt sér fjölda rannsókna sem sýna fram á að stofnanir séu ekki besti kosturinn fyrir fatlað fólk.

„Allar rannsóknir sýna að umgjörð stofnana skapar bestu aðstæður og rými til þess að beita fólki ofbeldi. Það er það sem er hættulegt. Það er það sem ég er að vísa í. Að setja hóp sem hefur lítið vald á eigin lífi og kannski líkama í kjöraðstæður fyrir ofbeldi. Rannsóknir sýna að þrjár af hverjum fjórum konum verða fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Því finnst mér skrítið að stjórnvöld, sem eiga að vera meðvituð um þessar staðreyndir, skuli áfram senda fólk á slíka staði.“

Freyja segist enn vera að móta sér skoðun á Guðna sem forseta og segist ætla að leyfa tímanum að sjá um það. Hún er þó bjartsýn um a hann muni standa sig vel sem forseti þó svo að hún hafi ekki verið ein af þeim sem kaus hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×