Innlent

Ræddu áframhaldandi samstarf um loftvarnareftirlit

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá komu Deborah Lee James til landsins.
Frá komu Deborah Lee James til landsins. Mynd/Bryndís Steina Friðgeirsdóttir
Deborah Lee James, ráðherra bandaríska flughersins, yfirgaf Ísland í dag eftir viðræður við íslensk stjórnvöld um áframhaldandi hlutverk Bandaríkjanna í loftvarnareftirliti NATO hér á landi. Hún heimsótti í dag loftrýmisgæsluna á flugvellinum í Keflavík og var einnig rætt um stuðning Íslands við starfsemi NATO.

"Heimsókn mín var mjög dýrmæt. Bandaríski flugherinn tekur skuldbindingu sína varðandio loftvarnareftirlit mjög alvarlega og við erum mjög þakklát fyrir samstarfið á milli Íslands og hinna NATO þjóðanna. Við áttum okkur á landfræðilegu mikilvægi Íslands og hlökkum til áframhaldandi samstarfs okkar við að tryggja öryggi gagnvart sameiginlegum ógnum,“ segir Lee James í tilkynningu frá sendiráði Bandaríkjanna.

Ráðherra fundaði með Arnóri Sigurjónssyni, skrifstofustjóra öryggis- og varnarmála í utanríkisráðuneytinu, og segist hún fullviss um að NATO muni styðja fjárhagslega við rekstur loftrýmisgæslunnar á flugvellinum í Keflavík.



Deborah Lee James tók við stöðu ráðherra bandaríska flughersins árið 2013. Hún er 23. ráðherra flughersins og ber ábyrgð á málefnum ráðuneytis flughersins, þar með talið skipulagi, þjálfun, útbúnaði og velferð yfir 660 þúsund starfandi hermanna, varða, varaliðs, óbreyttra flugmanna og fjölskyldna þeirra.

Heidi H. Grant,  annar vararáðherra flughersins í alþjóðamálum, fylgdi ráðherranum í heimsókninni til Íslands. Ferð Deborah Lee James til Íslands er hluti af svæðisheimsókn þeirra til að stuðla að öryggissamstarfi milli Bandaríkjanna og aðildarlanda NATO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×