Innlent

Leitast eftir að fjölga í Læknadeildinni

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Yfir stendur endurskipulagning á læknadeild Háskóla Íslands og ein af stærstu breytunum þar á bæ er að kanna hvort að fjölga megi nemendum deildarinnar úr 48 í 60. Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í dag.

Unnur Anna Valdimarsdóttir varaformaður læknadeildar Háskóla Íslands segir deildina hafa fengið beiðni frá Velferðarráðuneytinu um hvort fjölga mætti í deildinni til að anna eftirspurn. Mikill áhugi er á læknanámi hérlendis en margir þurfa að leita í skóla erlendis vegna plássleysis.

Hún segir læknanámið á Íslandi gott og að það standist erlendan samanburð, því væri það mikil bót fyrir námið á Íslandi að fjölga í deildinni.

Unnur Anna Valdimarsdóttir varaformaður læknadeildar HÍ.
„Það sækja það margir í þetta nám og við þurfum á hverju ári að vísa frá mörgum nemendum sem eru mjög hæfir og þreyta samkeppnispróf en komast ekki inn í þennan 48 nemenda glugga. Það er forsagan af þessu að þessir nemendur þurfa að leita í nám erlendis margir hverjir og þar höfum við minni tök, jafnvel þó að það sé góð reynsla af menntun þessara nemenda, þá höfum við minni tök á að fylgjast með gæðum þessa náms sem nemendur fara í,“ segir Unnur.

Hún segist bjartsáyn á að hægt verði að tryggja fjármagn og aðstöðu fyrir aukinn fjölda nemenda.

„Það virðist vera vilji hjá hinu opinbera að skoða þetta mál. Við erum með starfshópa innan deildarinnar sem eru að skoða þessa hluti og við ætlum að reyna að skila af okkur áliti um þetta á haustmánuðum. Vonandi vitum við þá hvort að það sé forsenda fyrir því að fjölda í deildinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×