Sport

Sérhannaður fatnaður íslenska hópsins á ÓL í Ríó vegur 1,2 tonn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir gengur fyrir íslenska hópnum á ÓL í London 2012.
Ásdís Hjálmsdóttir gengur fyrir íslenska hópnum á ÓL í London 2012. Vísir/Getty
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er á fullu að undirbúa för íslenska hópsins til Ríó þar sem Ólympíuleikarnir fara fram í næsta mánuði.

Á dögunum fékk ÍSÍ í hús búnað fyrir Ólympíuleikana í Ríó 2016, en þátttakendur í ár munu klæðast fötum og skóm frá kínverska íþróttavörufyrirtækinu Peak. ÍSÍ segir frá komu sendingarinnar frá Kína á heimasíðu sinni.

Á Ólympíuleikunum gilda mjög strangar reglur varðandi fatnað og stærð merkinga. Þannig er allur fatnaður án auglýsinga og eingöngu með einu litlu merki framleiðanda á hverri flík.

Sérpanta þarf því allan fatnað með löngum fyrirvara og gera ráð fyrir öllum þeim keppendum sem eiga möguleika á þátttöku sem og fylgdarmönnum þeirra.

Þetta var engin smá sendingin frá Kínverjunum en um níu vörubretti var að ræða og alls um 1,2 tonn af vörum.

Örvar Ólafsson, starfsmaður á Afreks- og Ólympíusviði ÍSÍ, fékk það verkefni að taka upp úr kössunum og verður líklega upptekinn við það næstu daga.

Á næstu dögum verður endanlega ljóst hvernig íslenski hópurinn á Ólympíuleikunum í Ríó verður skipaður, en leikarnir verða settir á Maracana vellinum í Ríó þann 5. ágúst næstkomandi. Átta íslenskir keppendur hafa þegar tryggt sér sæti á leikunum.

Örvar Ólafsson, starfsmaður á Afreks- og Ólympíusviði ÍSÍ, að taka upp úr pökkunum.Mynd/ÍSÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×