Innlent

Sveinn Jakobsson jarðfræðingur látinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sveinn Jakobsson jarðfræðingur.
Sveinn Jakobsson jarðfræðingur.
Sveinn Jakobsson jarðfræðingur lést síðastliðinn þriðjudag, 12. júlí. Hann fæddist 20. júlí 1939 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Jakob Sveinsson yfirkennari við Austurbæjarskólann og Ingeborg Vaaben Mortensen Sveinsson hjúkrunarkona.

Sveinn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1960 og hélt þá til Danmerkur til náms í jarðfræði. Hann var við nám í Kaupmannahafnarháskóla frá 1960-1969 og útskrifaðist mag.scient. 1969. Hann hlaut svo doktorsgráðu (dr.scient) frá Kaupmannahafnarháskóla 1980.

Að loknu námi 1969 hóf Sveinn störf hjá Náttúrugripasafni Íslands, síðar Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem hann vann mestallan sinn feril. Hann var forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar 1972-1974, 1981-1983 og 1990-1994, og deildarstjóri jarðfræðideildar 1969-1994. Einnig var hann stundakennari í bergfræði við jarðfræðiskor Háskóla íslands.

Sveinn tók virkan þátt í ýmsum nefndum og félögum tengdum náttúrufræðum, þar á meðal sat hann í stjórn Surtseyjarfélagsins 1972-2009, í stjórn Norrænu Eldjallastöðvarinnar 1973-1993, var varaforseti í stjórn Ferðafélags Íslands 1980-1987 og formaður fagráðs fyrir Náttúruvísindi og umhverfisvísindi hjá Rannsóknasjóði Íslands 2003-2005.

Sérgreinar Sveins voru berg- og steindafræði og á þeim sviðum skilaði hann miklu ævistarfi bæði sem safnmaður og í rannsóknum. Hann jók steinasafn Náttúrufræðistofnunar af mikilli elju með innlendum og erlendum sýnum, en meðal stærstu rannsóknaverkefna hans, sem hann fylgdi eftir árum og jafnvel áratugum saman, var bergfræði Reykjanesskaga og Vestur-gosbeltisins, og bergfræði Suðurlands-gosbeltisins, þar með talið Vestmannaeyja.

Áratug eftir lok Surtseyjargossins stóð hann ásamt öðrum fyrir borun gegnum gjóskuhaug Surtseyjar sem meðal annars leiddi í ljós að myndun móbergs úr basaltgleri er ferli sem nánast er lokahnykkur af gosinu sjálfu. Jafnframt fann hann í glufum í kólnandi hraunum Surtseyjar og Eldfells fjölda skammlífra steinda sem sumar voru nýjar uppgötvanir. Rannsóknir Sveins einkenndust af mikilli nákvæmni og þrautseigju, enda hafa niðurstöður þeirra staðist að mati kunnáttumanna.

Sveinn lætur eftir sig þrjár dætur, Huldu Þóru, yfirmann áætlanagerðar við Aberdeen-háskóla í Skotlandi, Thordis Hofdahl, grunnskólakennara, og Elisabeth Hofdahl, menntaskólakennara, sem báðar eru búsettar í Kaupmannahöfn, og fimm barnabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×