Innlent

Utanríkisráðherra: „Engar vísbendingar hafa borist um að Íslendingar í Tyrklandi hafi verið í hættu“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Lilja Dögg utanríkisráðherra.
Lilja Dögg utanríkisráðherra. Vísir
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisáðherra segir að valdaránstilrauninni í Tyrklandi virðist hafa verið hrundið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Tilraun hersins til valdaráns var stöðvuð í nótt en um tíma virtist sem uppreisnarsinnum tækist ætlunarverk sitt.

„Lýðræðislega kjörin stjórnvöld halda völdum og mikilvægt er að stöðugleiki komist á sem fyrst. Við hvetjum til stillingar og sátta í landinu,“ segir Lilja í tilkynningunni.

Borgarar þustu út á götur Ankara og Istanbúl í gær eftir að Erdogan forseti ávarpaði þjóðina í gegnum snjallsíma. Hvatti hann þjóðina til þess að stöðva uppreisnina og svo virðist sem mannmergðin á götum úti hafi ráðið úrslitum.

„Engar vísbendingar hafa borist um að Íslendingar í Tyrklandi hafi verið í hættu en borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins fylgist náið með þróun mála. Upplýsingar á vef og Facebook-síðu ráðuneytisins eru uppfærðar reglulega, þar með taldar ferðaviðvaranir. Vopnað valdarán gegn lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum er árás á lýðræðið. Á alþjóðavettvangi talar Ísland fyrir lýðræðislegum ferlum og mannréttindum sem öllum ríkisstjórnum ber að virða" segir Lilja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×