Innlent

Í beinni: Kvöldfréttir Stöðvar 2

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Atburðirnir í Tyrklandi í gær og í nótt munu setja sterkan svip á fréttatíma kvöldsins en tilraun hersins til valdaráns í landinu var afstýrt. Við förum ítarlega yfir hvað gerðist nákvæmlega, hvers vegna tyrkneski herinn hafi lagt á ráðin um valdarán og þá verður sérstakur prófíll um hinn umdeilda Recep Tayyip Erdoğan forseta landsins.

Í fréttatímanum verður líka fjallað um baksvið árásarinnar í Nice. Hvað vakti fyrir árásarmanninum og afleiðingar árásarinnar fyrir íbúa Nice, Frakklands og álfunnar allrar.

Við fjöllum um nýtt frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á kjararáði en það hefur vakið reiði meðal presta sem telja það ganga gegn kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997.

Við verðum líka á mýkri nótunum og ræðum við Íslendinga sem eru helteknir af Pokémon leiknum sem fæst nú í íslensku App Store. Þá verður rætt við þjóðminjavörð um boltann sem notaður var í leik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum EM í Frakklandi (boltann sem var á vellinum þegar flautað var til leiksloka en margir boltar eru í notkun í hverjum leik) en boltinn er nú til sýnis í Þjóðminjasafninu til að minnast íþróttaafreks íslenska liðsins og þessa móts sem sameinaði alla landsmenn um stund meðan keppnin stóð yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×