Innlent

Ríkið niðurgreiðir eingöngu allra ódýrustu hjálpartækin

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Fatlað fólk þarf oft að borga sjálft fyrir aukabúnað á hjólastóla.
Fatlað fólk þarf oft að borga sjálft fyrir aukabúnað á hjólastóla. Nordicphotos/Getty
„Fatlaðir þurfa oft að kaupa sér hjálpartæki og ég hef sjálfur rekið mig á mjög hátt verð,“ segir Bergur Þorri Benjamínsson, varaformaður Sjálfsbjargar, en hann segir ríkið einungis niðurgreiða ódýrustu lausn sem kostur er á þrátt fyrir að tækið sé ekki það hentugasta.

Þá sé ekkert niðurgreitt sem tengist útivist eða hreyfingu. Hjálpartæki séu oft mjög kostnaðarsöm og viðhald þeirra einnig.



Bergur Þorri Benjamínsson varaformaður Sjálfsbjargar.
„Ég á til dæmis bíl og þarf að nota lyftu til að komast inn í hann. Hún er í kassa undir bílnum og ég fæ ekki niðurgreiðslu því ég vil ekki hafa lyftuna inni í bílnum sem er ódýrara,“ segir Bergur sem greiðir fyrir lyftuna úr eigin vasa. Hann útskýrir að mikil óþægindi fylgi því að hafa lyftuna inni í bílnum, hún skrölti og taki mikið pláss. Þá segir hann varahluti í hjálpartækin oft mjög dýra og ekki niðurgreidda.

„Þegar eitthvað er framleitt fyrir fatlaða er ótrúleg álagning en það er örugglega af því að það halda allir að ríkið niðurgreiði það,“ segir Aðalbjörg Guðgeirsdóttir, en hún er bundin við hjólastól og notar mótor við hjólastólinn sem auðveldar henni að fara sínar leiðir. 

Á dögunum eyðilögðust rafhlöðurnar í mótornum. Hún fékk þær upplýsingar frá verslun sem selur hjálpartæki, að nýjar rafhlöður kosti 200.000 krónur. 

„Mér fannst það rosalega mikið, sérstaklega því þetta er ekki niðurgreitt af ríkinu. Mótorinn sjálfur er ekki niðurgreiddur og hvað þá nýjar rafhlöður í hann,“ segir Aðalbjörg. 

Ástæðan fyrir því að hún fékk ekki mótorinn niðurgreiddan var sú að hún væri hvorki offitusjúklingur né með stoðkerfisvandamál. 

„Auðvitað er ég með stoðkerfisvandamál. Ég er í hjólastól,“ segir hún og tekur undir það með Bergi að aðeins allra ódýrasta lausnin sé niðurgreidd.





Aðalbjörg Guðgeirsdóttir öryrki
„Ég kannast við þetta. Fólk þarf oft að borga sjálft dýr hjálpartæki til að halda sér virkum í samfélaginu,“ segir Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður ÖBÍ, og bætir við að til dæmis þurfi vinnuveitandi að greiða fyrir hjálpartæki fatlaðs starfsmanns. Ríkið niðurgreiði þau ekki. „Það finnst okkur öfugsnúið þegar hið opinbera vill ýta undir atvinnuþátttöku fatlaðra,“ segir Halldór en hann er blindur og þarf punktaletursskjá í vinnu sem kostar allt að milljón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×