Innlent

Götumarkaður í Fógetagarðinum næstu fimm helgar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
KRÁS götumatarmarkaður verður opnaður á laugardaginn í Fógetagarðinum í Reykjavík. Þetta verður í fimmta skiptið sem KRÁS verður haldinn og eins og fyrr má gera ráð fyrir gómsætum götumat, hressandi drykkjum og almennri gleði.  

„Á KRÁS sameinast kokkar frá allri veitingarflórunni og útbúa götumat, undir berum himni. Á KRÁS er hægt að setjast niður, fá sér vínglas og njóta matarins á staðnum eða taka með sér heim ef fólk vill það frekar,“ segir í tilkynningunni. 

KRÁS verður opin á laugardögum og sunnudögum í sumar frá kl. 13:00 -18:00. KRÁS opnar laugardaginn 23. júlí og lýkur á Menningarnótt þann 20. ágúst.

Hugmyndasmiðir og verkefnastjórar götumarkaðarins eru þau Gerður Jónsdóttir og Ólafur Örn Ólafsson en götumatarhátíðin er unnin í samvinnu við Reykjavíkuborg og er hluti af Torg í biðstöðu verkefni borgarinnar. 

Heildarútlit markaðarins er í höndum Baldurs Helga Snorrasonar arkitekts, Sveins Daða Einarssonar verkfræðinema, Snorra Þórðarsonar Reykdal húsgagnasmiðs og Jóns Helga Hólmgeirssonar iðnhönnuðar en þeir fengu jafnframt Grapevine hönnunarverðlaunin 2014 sem bjartasta vonin fyrir útlit KRÁS-ar 2013.

„Markmiðið með markaðinum er fyrst og fremst að gera Reykjavík að enn skemmtilegri matarborg. Þarna verður pláss fyrir alla og þarna ættu vinir, ömmur og afar, börn, kærustupör, einstaklingar, frænkur og frændur að geta notið þess að vera saman og borða góðan mat,“ segir í tilkynningunni.

Facebook-síðu markaðarins má finna hér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×