Ef litið er til sögunnar þá hlaut Hannes Bjarnason 1.556 atkvæði árið 2012, sem er meira en fjórir frambjóðendur sem nú tóku þátt geta státað sig af. Hann náði meðmælafjöldanum með 56 atkvæði, umfram hinn tilskylda 1.500 undirskrifta lista sem leggja þarf fram áður en til framboðs kemur. Jafnvel Sigrún Þorsteinsdóttir, sem fór fram gegn sterkum sitjandi forseta, Vigdísi Finnbogadóttur árið 1988 má talsvert betur við una, fékk 6.712 eða 5,3 prósent.
Fjögur ná ekki tölu undirskriftalista sinna
Ekkert þeirra fjögurra sem neðst voru nú náðu upp í þá tölu sem þeim var gert að safna á undirskriftalista áður en til framboðs kom. Guðrún Margrét Pálsdóttir hlaut 477 atkvæði, Ástþór Magnússon 615 atkvæði og Elísabet Jökulsdóttir hlaut 1.280.

Hallar undan fæti hjá Ástþóri
Þeim mun oftar sem Ástþór Magnússon fer fram, þeim mun færri atkvæði fær hann. Ástþór fékk 4.422 þegar hann bauð fyrst fram 1996 eða 2,7 prósent. Árið 2004 fékk hann 2.001 atkvæði og nú eru þau 615.
Þannig fjarar jafnt og þétt undan stuðningi við forsetaframbjóðandann Ástþór, gróft metið um rúman helming í hvert sinn og miðað við þessa þróun mun hann hnekkja hinu vafasama meti Hildar næst þegar hann býður sig fram.