Innlent

Ráðherra segir fullgildingu líklega í ágúst

Svavar Hávarðsson skrifar skrifar
Lilja Alfreðsdóttir
Lilja Alfreðsdóttir
Utanríkisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, lýsti því yfir í þingræðu 2. júní að stefnt sé að fullgildingu Íslands á Parísarsamkomulaginu í ágúst. Noregur stefnir að fullgildingu í þessum mánuði. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti í gær tillögu sína um að ESB fullgildi samkomulagið með hraði.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, bendir á að til þessa er Ungverjaland eina aðildarríki ESB sem hefur fullgilt samkomulagið en Frakkland mun væntanlega ganga frá fullgildingu í þessum mánuði.

Árni Finnsson
Í fréttatilkynningu Náttúru­verndar­samtakanna segir að yfirlýsing ESB sé til marks um að sambandið vilji fyrir engan mun missa frumkvæðið við framfylgd Parísarsamkomulagsins vegna þeirra örðug­leika sem felast í að öll aðildarríkin 28 verða fyrst að fullgilda það heima fyrir áður en Evrópuþingið getur gert það.

Til að Parísarsamkomulagið öðlist lagagildi þurfa 55 ríki, sem losa 55% af heimslosun gróðurhúsalofttegunda, að staðfesta það. Nú virðist sem það geti orðið fyrir næstu áramót þar sem bæði Kína og Indland hafa nú lýst yfir vilja til þess, auk Bandaríkjanna og Brasilíu, segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að Evrópusambandið – sem stendur fyrir um 10% af heimslosuninni – hafi lengi stært sig af að vera leiðandi afl í loftslagsmálum innan Sameinuðu þjóðanna. „Fari svo að samkomulagið verði að alþjóðalögum áður en sambandið nær að klára staðfestingarferlið yrði það álitshnekkir fyrir ESB. Að lágmarki verður Evrópusambandið að klára fullgildingarferlið snemma árs 2017 en það ár hefjast viðræður um hvernig aðildarríki Parísarsamkomulagsins geti hert róðurinn og staðið við sameiginlega skuldbindingu sína um að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 2°C og takmarka hana helst við 1,5°C.“

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. júní 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×