Innlent

Sluppu úr gerðinu og töltu eftir Vatnsendavegi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Sex hestar sluppu úr gerði sínu á svæði Hestamannafélagsins Spretts í Kópavogi í kvöld. Eigendur hestanna voru skammt undan og komu þeim aftur á sinn stað hið snarasta.

„Þetta var nokkuð hressandi kvöldsprettur,“ sagði Snorri Freyr Garðarsson, eigandi hestanna, í samtali við Vísi. „Konan mín var í hesthúsinu og tók strax eftir því þegar þetta gerðist. Við fengum aðstoð frá góðu fólki, hestarnir eru vel tamdir og þetta tókst á örskotsstund.“

Ekki er vitað nákvæmlega hvernig hestarnir fóru að því að komast úr gerðinu en Snorra þykir líklegt að einhvert hrossanna hafi lagt þunga sinn á hliðið með fyrrgreindum afleiðingum. „Mig grunar einn ungan, fimm vetra, sem er þarna í hópnum. Ég held að hann hafi verið að leiða hina í vitleysu.“

Vegfarendur um Vatnsendaveg höfðu samband við lögreglu vegna lausagöngu hrossanna en ekki kom til þess að kalla þyrfti menn á vettvang. „Þetta gekk allt bara mjög vel. Ég hugsa að þeir sakni græna grassins fyrir austan,“ segir Snorri sem vistar hrossin í sumarhaga skammt frá Hellu.

„Við ætlum að fara með þau þangað á næstu dögum. Mér finnst líklegt að þau hafi misst þolinmæðina og ákveðið að fara bara lengri leiðina,“ segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×