Innlent

Lilja ræddi við Gordon Brown um Icesave

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Gordon Brown og Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fyrir flugtak um borð í vél Turkish Airlines.  Samtal þeirra sem hófst á flugvellinum hélt áfram um borð í vélinni.
Gordon Brown og Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra fyrir flugtak um borð í vél Turkish Airlines. Samtal þeirra sem hófst á flugvellinum hélt áfram um borð í vélinni. Mynd/aðsend

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hitti Gordon Brown fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands fyrir tilviljun á flugvellinum í Istanbúl en þau voru bæði á leið til Brussel með Turkish Airlines.

Lilja sótti ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um mannúðarmál í Istanbúl í upphafi vikunnar. Gordon Brown er fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands en ríkisstjórn hans beitti hryðjuverkalögum gegn Íslandi í bankahruninu haustið 2008. Með því vildi hann tryggja hagsmuni Breta vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Um var að ræða afar umdeilda ákvörðun sem olli Íslendingum talsverðu tjóni. Þær skýringar voru gefnar á sínum tíma að bresk stjórnvöld hefðu dagana á undan orðið var við mikla fjármagnsflutninga frá Lundúnum til Íslands. Lilja var á þeim tíma í hringiðu þessara atburða sem starfsmaður Seðlabankans.

Lilja gaf sig á tal við Brown og samtalið hélt áfram um borð í vél Turkish Airlines þar sem meðfylgjandi mynd náðist á snjallsíma. 

„Jú, það var óvænt að rekast á Gordon Brown á flugvellinum í Istanbúl. Hann birtist áður en við vorum kölluð um borð og settist við hliðina á mér. Ég hafði ekki hitt þennan mann áður og kynnti mig því fyrir honum. Ég ætlaði nú bara að kasta á hann kveðju, en samtalið dróst á langinn og var hið áhugaverðasta," segir Lilja.  

Rædduð þið Icesave? 

„Við áttum heiðarlegt og faglegt spjall um ýmis mál sem snerta samskipti Íslands og Bretlands, þar á meðal um Icesave. Hann bað fyrir bestu kveðju til Íslands og gladdist yfir þeim mikla árangri sem Íslendingar hafa náð á undfanförnum árum.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.