Innlent

Könnun fréttastofu 365: Guðni með 65 prósenta fylgi

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, Davíð Oddsson, Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir taka þátt í kappræðum Stöðvar 2.
Guðni Th. Jóhannesson, Davíð Oddsson, Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir taka þátt í kappræðum Stöðvar 2. Vísir
Rúmlega 65 prósent þeirra sem tóku afstöðu ætla að kjósa Guðna Th. Jóhannesson í embætti forseta Íslands, samkvæmt nýrri könnun fréttastofu 365. Davíð Oddsson mælist með tæplega 20 prósenta fylgi.

Hringt var í 1.080 manns þar til náðist í 800 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 23. og 24. maí. Svarhlutfallið var 74,1% prósent. Spurt var: Ef forsetakosningar færu fram á morgun, hvern myndir þú kjósa? Alls tóku 67 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust rúmlega 65 prósent ætla að kjósa Guðna Th. Jóhannesson. Næstur honum er Davíð Oddsson með tæplega 20 prósent og þar á eftir Andri Snær Magnason með tæplega átta prósent. Halla Tómasdóttir kemur þar á eftir með 2,5 prósent. Þá mælist Sturla Jónsson með 1,7 prósent en aðrir mælast með minna, alls 2,7 prósent.

Líkt og greint var frá á mánudag var öllum frambjóðendum sem mælast með 2,5 prósent eða meira boðið að taka þátt í kappræðum á Stöð 2 í kvöld sem hefjast á slaginu 19:08. Alls eru fjórir frambjóðendur sem fullnægja því skilyrði, þau Guðni Th., Davíð, Andri og Halla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×