Innlent

Mikil atvinnutækifæri sögð fólgin í meiraprófsréttindum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Mikill skortur er á bílstjórum með meirapróf vegna mikils fjölda ferðamanna á landinu.
Mikill skortur er á bílstjórum með meirapróf vegna mikils fjölda ferðamanna á landinu. vísir/Anton Brink
Tvöfalt fleiri fengu réttindi til að keyra rútu árið 2015 en fimm árum áður og rétt tæplega tvöfalt fleiri fengu réttindi til að keyra leigubíl. Einnig eru æ fleiri sem fá leyfi til að keyra lítinn hópbíl. Aukning hefur verið í öllum flokkum meiraprófs fyrir utan eftirvagnapróf.



Guðbrandur Bogason, ökukennari í Ökuskólanum Mjódd Fréttablaðið/
Guðbrandur Bogason, ökukennari í Ökuskólanum Mjódd, segir að algjör sprenging hafi orðið á fjölda nemenda sem taka rútupróf síðustu fimm ár. Þessi mikla aukning tengist fleiri ferðamönnum á landinu. Mikill skortur á bílstjórum með meirapróf í kjölfar fleiri ferðamanna og rútuferða hafi orðið til þess að fólk ákveði að bæta við sig réttindum eða jafnvel breyta alveg um starfsvettvang.

„Fólk sér tækifæri og ákveður að grípa gæsina. Fólk er á mjög mismunandi aldri en margir eru í kringum fimmtugt að bæta við sig þessum réttindum,“ segir Guðbrandur. „Það er líka veruleg fjölgun á leigubílstjórum. Þá eru menn að nota helgarnar til að keyra bílana í aukavinnu og kroppa túristana.“



Arnar Már Ottósson, nemi í ökuskóla Fréttablaðið/Vilhelm
Fréttir voru sagðar af því í síðasta mánuði að Strætó þyrfti að flytja inn vinnuafl í sumarafleysingar. Gert var ráð fyrir að minnsta kosti 25 manna hópi til landsins til að keyra vagnana. Guðbrandur segist vita til þess að mörg ferðaþjónustufyrirtæki eigi erfitt með að manna rúturnar á sumrin. Margir bregði á það ráð að fá hingað erlent vinnuafl og Íslendingar með meirapróf séu eftirsóttir.

Af skrifstofunni upp í jeppa



„Svona kemst ég í tengingu við náttúruna og umhverfið okkar. Það er spennandi að vera þátttakandi í uppbyggingu ferðaþjónustunnar,“ segir Arnar Már Ottósson, sem er að taka meirapróf hjá ökuskólanum. Hann vinnur á daginn í tæknigeiranum við skrifborðið en ætlar sér að taka að sér jeppaferðir um helgar í sumar.

„Það er verið að tala um að allir séu að græða á þessum bransa. Ég er ekki að fara í þetta til að græða. Ég er í raun að ná mér í nýja lífsreynslu.“



Arnar segir að það komi honum mest á óvart hve fjölbreyttur hópur sé í ökuréttindanámi og hversu ítarlegt námið sé. „Þetta snýst ekki bara um ökutækið. Þetta snýst um að vera góður atvinnubílstjóri, taka ábyrgð, kunna skyndihjálp og að bregðast við atvikum í umferðinni og svo er mikilvægt að hugsa vel um ökutækið, þrífa það og bjóða upp á góða þjónustu.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×