Innlent

Sparaði 700 milljónir út af verkföllum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Landspítalinn.
Landspítalinn. Mynd/Vilhelm
Rekstrargjöld Landspítalans voru 700 milljónum króna undir áætlun á síðasta ári út af verkföllum heilbrigðisstarfsmanna. Lækkunin varð til þess að spítalinn skilaði tekjuafgangi í fyrsta skipti síðan 2012.

Ársreikningur Landspítalans fyrir árið 2015 var kynntur á ársfundi spítalans í dag. Spítalinn skilaði tæplega 56 milljón króna tekjuafgangi borið saman við 750 milljón króna halla árið 2014. Þetta er viðsnúningur upp á rúmar 800 milljónir á milli ára.

Fram kom í máli Maríu Heimisdóttur framkvæmdastjóra fjármálasviðs að verkfall heilbrigðisstarfsmanna hafi haft þau áhrif að rekstrargjöld voru 700 milljónum undir áætlun.

Verkföllin á síðasta ári urðu meðal annars til þess að aðgerðum var frestað og biðlistar lengdust með tilheyrandi óþægindum fyrir sjúklinga.

„Fjármögnunarmódelið sem spítalinn hefur búið við lengi er í raun og veru föst fjárlög og fastur rammi. Óháð því hvað er að gerast á spítalanum. Það er ekki besta leiðin til að fjármagna svona stórar stofnanir enda er verið að vinna í því og ráðuneytið hefur markvisst unnið að því að breyta greiðslufyrirkomulagi þannig að það fé sem spítalinn fái sé í samræmi við verkefni og afköst,“ segir Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×