Innlent

Hvetur stjórnarandstöðuna til að leggja fram vantrauststillögu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Framsóknarflokks hvetur stjórnarandstöðuna til að leggja fram vantrauststillögu á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Hann segir að slík tillaga muni einungis styrkja stöðu Sigmundar.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar íhuga nú að leggja fram vantrauststillögu á forsætisráðherra vegna upplýsinga um að eiginkona hans eigi félag sem er skráð á Bresku jómfrúaeyjum.

Stjórnarandstaðan telur að forsætisráðherra hefði átt að upplýsa um þessar eignir fyrr og krefst þess að hann geri grein fyrir málinu á Alþingi.

Þingmenn Framsóknarflokks hafa gagnrýnt þennan málflutning þar á meðal Þorsteinn Sæmundsson sem hvetur stjórnarandstöðuna til að leggja fram vantrauststillögu

„Ef að þetta er áhugamál hjá þeim og ef þeir telja sig fá eitthvað fram með því að gera þetta þá ættu þeir endilega að gera það. Það mun bara styrkja stöðu forsætisráðherra ef menn fara yfir þessi mál og hans störf,“ segir Þorsteinn.

Hann segir að forsætisráðherra hafi þegar svarað öllum spurningum í málinu. 

„Mér finnst hafa komið svör við öllum spurningum og einnig prýðis yfirlýsing frá eiginkonu hans. Málið snýst meira og minna um hana vegna þess að andstæðingar Sigmundar sem eru að reyna að fá höggstað á honum á hverjum degi hafa nú gugnað á því og eru nú búnir að snúa sér að fjölskyldu hans sem er frekar lítilmannlegt,“ segir Þorsteinn. 

Vilhjálmur Bjarnason þingmaður Sjálfstæðisflokks sagði í fréttum stöðvar tvö um helgina að málið hafi rýrt traust á milli stjórnarflokkanna. Þorsteinn telur ekki að málið skaði stjórnarsamstarfið. 

„Það er ekki nýtt að Vilhjálmur Bjarnason hafi sérskoðanir á hinu og öðru og hann er búinn að þvælast fyrir mörgum ágætum málum sem hafa náðst í gegn hér á síðustum misserum. Það er ekkert nýtt og við kippum okkur ekki upp við það,“ segir Þorsteinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×