Sport

Fullkominn vetur hjá Emilíu Rós

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emilía Rós Ómarsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar.
Emilía Rós Ómarsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar. Mynd/Helga Hjaltadóttir
Skautadrottningin Emilía Rós Ómarsdóttir úr Skautafélagi Akureyrar hélt sigurgöngu sinni áfram á Vetrarmóti ÍSS um helgina en þetta var síðasta skautamót vetrarins.

Emilía Rós Ómarsdóttir setti stigamet í stuttu prógrammi á laugardaginn og fylgdi því efir með því að fá samtals 100,22 stig eftir frjálsa prógrammið og tryggja sér sigur á mótinu.

Emilía Rós vann þar með öll mót vetrarins í Unglingaflokki A sem er glæsilegur árangur hjá þessari ungu skautakonu.

Emilía Rós sló á laugardag stigamet í stuttu prógrammi  sem Vala Rún B. Magnúsdóttir setti á bikarmóti árið 2014. Vala fékk þá 37.08 stig en Emilía Rós skautaði nánast óaðfinnanlega og fékk 38.91 stig.

Þuríður Björg Björgvinsdóttir SR skilaði mjög góðu prógrammi í gær og endaði með 95.15 stig. Hún setti því mjög mikla pressu á Emilíu Rós sem skautaði síðust.  Emilía lét pressuna hinsvegar ekki trufla sig og skautaði mjög vel

Kristín Valdís Örnólfsdóttir úr SR, var fimmta eftir stutta prógrammið, skilaði mjög góðu frjálsu prógrammi og endaði í þriðja sætinu með 94.48 stig.

Sól Torfadóttir SB setti persónulegt met á mótinu, skilaði viðmiðum ÍSS í frjálsa prógrammi og endaði í fjórða sæti með 90.46. Þetta gerði Sól á afmælisdaginn sinn.

Sigurvegari í Stúlknaflokki A varð Marta María Jóhannsdóttir frá Skautafélagi Akureyrar með 77.97 stig og hefur hún, eins og Emilía Rós, sigrað í sínum flokki á öllum ÍSS mótum í vetur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×