Enski boltinn

„Nýr samningur í næstu viku eða Toure fer“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Yaya Toure í búningi City.
Yaya Toure í búningi City. Vísir/Getty
Dimitri Seluk, umboðsmaður Yaya Toure, hefur gefið Manchester City afarkosti í samningaviðræðum hans við félagið.

Toure á eitt ár eftir af samningi sínum við City en í febrúar sagði hann að Toure myndi líklega fara frá félaginu í sumar, þegar Manuel Pellegrini myndi stíga til hliðar fyrir Pep Guardiola sem stjóri liðsins.

En nú er kominn annar tónn í umboðsmanninn. Hann segir að Toure vilji vera áfram í herbúðum City og að hann muni ekki fara til annars félags á Englandi.

„Við verðum að finna lausn strax í næstu viku. Annað hvort mun Yaya framlengja samning sinn eða hann fer til annars félags,“ sagði Seluk í viðtali við The Sun í dag.

„Stuðningsmennirnir elska Yaya og hann elskar þá. Hann vill ekki spila með öðru ensku liði gegn City. Hvernig gæti hann gert það og gleymt allri ástinni sem stuðningsmenn City hafa sýnt honum?“

„Þeir leigðu flugvél með borða til að óska honum til hamingju með afmælið. Því mun hann aldrei gleyma.“

Seluk sagði enn fremur að kínverska félagið Jiangsu Suning hafi boðið Toure samning sem hefði þýtt að hann hefði tvöfaldað vikulaun sín hjá City - úr 27 milljónum í 54 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×