Enski boltinn

Hodgson ánægður með enska framherjaúrvalið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Daniel Sturridge gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir landsliðið í tæp tvö ár.
Daniel Sturridge gæti spilað sinn fyrsta leik fyrir landsliðið í tæp tvö ár. vísir/getty
Roy Hodgson, landsliðsþjálfari Englands í fótbolta, er virkilega ánægður með framherjaúrvalið sem stendur honum til boða þessa dagana.

Hodgson valdi fimm framherja; Harry Kane, Daniel Sturridge, Jamie Vardy, Theo Walcott og Danny Welbeck, í hópinn sem mætir Þýskalandi og Hollandi í vináttuleikjum í lok mánaðarins.

Hann á líka Wayne Rooney, fyrirliða Englands, inni en hann er meiddur og hefur verið síðustu vikur.

Daniel Sturridge gæti spilað sína fyrstu landsleiki síðan í september 2014 og þá hefur Danny Welbeck ekki komið við sögu vegna meiðsla síðan í mars á síðasta ári.

„Það er alltaf gaman að tilkynna hóp þar sem er nóg af framherjum. En auðvitað verðum við svo að skila einhverjum úrslitum,“ segir Hodgson.

„Við þurfum sterkan, breiðan og fjölhæfan hóp fyrir Evrópumótið. Við erum með sex mjög góða og mismunandi framherja ef við tökum Rooney með inn í þetta,“ segir Roy Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×