Enski boltinn

Van Gaal: Verðum að vinna City til að komast í Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal og Jürgen Klopp á Old Trafford í gær.
Louis van Gaal og Jürgen Klopp á Old Trafford í gær. Vísir/Getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, gerði öllum grein fyrir mikilvægi nágrannaslagsins við Manchester City á sunnudaginn kemur.

Liverpool sló  Manchester United út úr Evrópudeildinni í gærkvöldi og því er baráttan um fjögur efstu sætin komin í algjöran forgang hjá United-mönnum.

„Við verðum að vinna City því það er hin leiðin fyrir okkur til að tryggja okkur sæti í Meistaradeildinni," sagði Louis van Gaal við BBC eftir Liverpool-leikinn í gær.

„Væntingarnar eru alltaf miklar. Við vitum það, þekkjum það og kunnum að lifa með því," sagði Van Gaal.

Sigurvegari Evrópudeildarinnar tryggir sér sæti í Meistaradeildinni og Liverpool á því enn möguleika á því að komast þangað þrátt fyrir að staðan í deildinni heima bjóði ekki upp á slíkt.

Manchester United er nú í sjötta sæti ensku deildarinnar, fjórum stigum á eftir nágrönnunum í Manchester City sem sitja í fjórða og síðasta sætinu sem gefur þátttökurétt í Meistaradeildinni á næsta tímabili.

Leikur Manchester City og Manchester United fer fram á Etihad-leikvanginum á sunnudaginn og tap þar þýddi að United væri komið sjö stigum á eftir þegar aðeins átta leikir væru eftir.

„Ég er hvorki reiður né pirraður. Við sköpuðum okkur fullt af færum en þeir skoruðu þetta útivallarmark sem breytti öllu," sagði Van Gaal.

„Ég vona að leikurinn á móti City breyti stöðunni fyrir okkur.Við munum gera allt sem við gerðum í þessum leik," sagði Van Gaal.

Manchester-liðin gerðu markalaust jafntefli í fyrri leiknum á Old Trafford en United-liðið þarf helst betri úrslit en það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×