Sport

Ármenningar hafa tryggt sér einkarétt á Master Meisam Rafiei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá undirritun samnings.  Inga Eyþórsdóttir, formaður taekwondodeildar Ármanns, Master Írunn Ketilsdóttir, yfirþjálfari tækni og Master Meisam nýráðinn yfirþjálfari bardaga.
Frá undirritun samnings. Inga Eyþórsdóttir, formaður taekwondodeildar Ármanns, Master Írunn Ketilsdóttir, yfirþjálfari tækni og Master Meisam nýráðinn yfirþjálfari bardaga. Mynd/Taekwondodeild Ármanns
Master Meisam Rafiei hefur gert samning við Taekwondodeild Ármanns og mun hann hér eftir starfa sem yfirþjálfari í bardagahluta taekwondo hjá Ármanni.

Það skiptir líka miklu máli í þessu að Ármenningar hafa tryggt sér einkarétt á þjálfun hans en hann hefur einnig verið að þjálfa hjá öðrum íslenskum félögum undanfarin ár.

Meisam Rafiei varð Norðurlandsmeistari í taekwondo í janúar síðastliðnum en hann er einnig landsliðsþjálfari Íslands.

Meisam Rafiei er upphaflega frá Íran en hann hlaut íslenskan ríkisborgararétt árið 2011. Hann varð heimsmeistari unglinga árið 2002 og heimsmeistari hermanna 2006 og 2008.

„Bardagaæfingum verður fjölgað í viku hverri í kjölfar samningsins. Þær breytingar taka gildi í apríl og verða tilkynntar fljótlega bæði á heimasíðu deildarinnar og á síðu deildarinnar á Facebook. Meisam mun einnig sjá um að þjálfa og styðja við iðkendur Ármanns á öllum mótum innanlands. Við teljum að þetta verði mikil lyftistöng fyrir félagið og hlökkum mikið til að vinna með Meisam að áframhaldandi uppbyggingu félagsins á næstu misserum," segir í fréttatilkynningu.

Master Írunn Ketilsdóttir verður áfram yfirþjálfari í tækni og mun Taekwondodeild Ármanns því vera með tvo yfirþjálfara sem bæði eru með 4.dan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×