Innlent

Stunguárás við Sæmundargötu: Krafist áframhaldandi gæsluvarðhalds

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Árásin átti sér stað fyrir utan stúdentagarðana við Sæmundargötu.
Árásin átti sér stað fyrir utan stúdentagarðana við Sæmundargötu. Vísir/stöð 2
Farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manni sem játað hefur að hafa stungið annan mann við Sæmundargötu í Vesturbæ Reykjavíkur aðfaranótt sunnudags. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald á sunnudaginn en það rennur út í dag.

Mennirnir eru báðir fæddir árið 1989 og eru nemendur við Háskóla Íslands. Þeir eru félagar en samkvæmt heimildum fréttastofu snerist rifrildi mannanna um þriðja aðila. Hvorugur þeirra hefur komið við sögu lögreglu áður.

 

Málavextir eru þeir að aðfaranótt sunnudags var lögregla kölluð að stúdentagörðum við Sæmundargötu. Þá hafði annar mannanna stungið hinn í bakið með hníf. Nokkur vitni voru að árásinni en enginn annar er grunaður um þátttöku í henni. Öll lykilvitn hafa verið yfirheyrð og þá er hnífurinn sem beitt var í vörslu lögreglu.

Manninum sem fyrir árásinni varð er enn haldið sofandi í öndunarvél, samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum.


Tengdar fréttir

„Menn hafa ekkert að gera með hníf á almannafæri“

Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir það morgunljóst að menn hafi ekkert með hníf að gera í miðbæ Reykjavíkur um helgar. Karlmaður sem stunginn var aðfaranótt sunnudags í Vesturbænum liggur enn þungt haldinn á gjörgæslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×