Innlent

Eistnakreistingur á annan í jólum kostaði djammara 100 þúsund krónur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Gripið átti sér stað á Gamla kaupfélaginu á Akranesi
Gripið átti sér stað á Gamla kaupfélaginu á Akranesi vísir/Gva
Héraðsdómur Vesturlands dæmdi mann á dögunum til að greiða 100.000 krónu sekt fyrir að hafa gripið í klof dyravarðar á skemmtistaðnum Gamla Kaupfélaginu á Akranesi annan í jólum árið 2014. Í dómi hérðasdóms kemur fram að maðurinn hafi kreist pung dyravarðarins svo hann bólgnaði, varð um „tvöfalt á við það sem eðlilegt geti talist,“ og marðist.

Fyrir dómi skýrði maðurinn svo frá að hann hefði verið á dansleik á Gamla kaupfélaginu aðfaranótt 27. desember 2014. Hann hefði verið í miklu stuði, ölvaður en ekki ofurölvi, og farið upp á svið til að dansa. Þá hefði dyravörður komið aftan að honum, án þess að ávarpa hann, tekið hann taki og reigt hendur hans aftur.

Kvaðst hann hafa meitt sig í öxlunum og reynt að losa sig með því að hreyfa sig til. Maðurinn sagðist ekki kannast við að hafa gripið í klof dyravarðarins en hann gæti ekki útilokað að hönd sín gæti hafa lent á þessu svæði. Hefðu þeir dottið fram af sviðinu og þá hefði annar dyravörður komið að og mikil átök átt sér stað á gólfinu.

Dyravörðurinn sagði fyrir dómi að svo hefði ekki verið. Maðurinn hefði gripið um pung hans í um 2 til 3 sekúndur en hönd hans ekki slegist í klof dyravarðarins.

Ekki hægt að útiloka högg

Læknir sem var á vakt það kvöld gaf símaskýrslu vegna læknisskoðunar á dyraverðinum eftir að hann kom á sjúkrahúsið. Kvaðst Sindri hafa skoðað brotaþola um klukkutíma eftir að hann hefði lent í átökum. Lýsti hann því að dyravörðurinn hefði gengið haltur vegna verkja. Við skoðun á kynfærum mannsins hefði pungurinn verið greinilega bólginn og talsvert stækkaður eða líklega tvöfalt á við það sem eðlilegt geti talist.

„Vitnið staðfesti að þeir áverkar sem brotaþoli hefði verið með gætu tvímælalaust hafa orsakast við atburðarás eins og þá sem brotaþoli hefði lýst fyrir honum, eða við það að vera klipinn í punginn. Kvaðst vitnið ekki geta útilokað að áverkar brotaþola gætu hafa komið við högg en áverkarnir væru eins og hann myndi búast við í tilvikum þegar vefirnir hefðu verið kramdir,“ segir í dómi héraðsdóms.

Hinum ákærða var gert að greiða 100 þúsund krónur í sekt og að átta daga fangelsi kæmi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×