Innlent

Karlar hafa greiðari aðgang að styrkjum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Ný skýrsla leiðir í ljós að aðgengi karla í sauðfjárrækt að styrkjum og lánsfé er betra en kvenna.
Ný skýrsla leiðir í ljós að aðgengi karla í sauðfjárrækt að styrkjum og lánsfé er betra en kvenna. vísir/gva
Vísbendingar eru um að vinna kvenna í sveitum sé óskráð, ólaunuð og ósýnileg í opinberum gögnum. Þetta kemur fram í nýrri úttekt á stöðu kvenna í sauðfjárrækt sem unnin var af Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands fyrir Landssamtök sauðfjárbænda.

Hlutfall kvenna í sveitahéruðum er mun lægra en í öðrum sveitarfélögum landsins. Sú þróun hefur átt sér stað að konur í landbúnaði eru að eldast og karlar að yngjast, en nýliðun byggist að miklu leyti á ungum körlum.

Meðal niðurstaðna skýrslunnar er að aðgengi karla í sauðfjárrækt að styrkjum og lánsfé er betra en kvenna, karlar í sauðfjárrækt afla sér meiri lífeyrisréttinda en konur í greininni og karlar eru frekar skráðir fyrir eignum og réttindum en konur, en rétt og sanngjörn skráning er mikilvægur þáttur jafnréttis.

Stjórnvöld og grasrótarsamtök hafa ýtt úr vör ýmsum verkefnum til þess að bæta stöðu kvenna í landbúnaði. Skýrsluhöfundar leggja þó til frekari tillögur til úrbóta, meðal annars að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið endurskoði reglur um skráningu búa og eigna í landbúnaði með það að markmiði að tryggja rétt kvenna. Einnig er lagt til að gæta að kynjasjónarmiðum við kosningar í Landssamtökum sauðfjárbænda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×