Innlent

Rúmar fimm milljónir af fé Flokks heimilanna runnið á reikning tveggja bræðra

Jakob Bjarnar skrifar
Pétur sigraði Kristján Snorra í meiðyrðamáli, vel að merkja vegna þess að ummæli hans töldust sönn.
Pétur sigraði Kristján Snorra í meiðyrðamáli, vel að merkja vegna þess að ummæli hans töldust sönn.
Pétur Gunnlaugsson, sem jafnan er kenndur við útvarp Sögu, var nú áðan sýknaður í meiðyrðamáli Kristjáns Snorra Ingólfssonar á hendur honum. Þetta var nú fyrr í dag í fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.

Umrædd ummæli tengjast deilum um rekstur á stjórnmálaflokknum Flokki heimilanna, sem fékk 20 milljónir króna frá ríkissjóði vegna alþingiskosninganna 2013. Flokkurinn fékk rétt rúm 3 prósent í kosningunum, engan mann kjörinn en þetta dugði til þess að flokknum bar framlag úr ríkissjóði. Síðan hafa staðið deilur um flokkinn og hefur verið tekist á um hver hefur yfirráð yfir honum.

Sagði fé flokksins fara í einkaneyslu

Kristján Snorri er formaður flokksins og hann var ósáttur við eftirfarandi ummæli Péturs sem birtust á Eyjunni 4. júlí 2014:

„Það þarf að greiða skuldir flokksins, en þetta fer bara í einkaneyslu hjá þeim og þeir fara bara á HM í Brasilíu. Þeir eru ekki að borga skuldirnar. Það er ljóst miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja að þeir eru að nota þessa peninga í sína eigin þágu. Þeir settu þetta inn á einkareikning sinn.“

Kristján Snorri krafðist þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk auk þess sem hann vildi miskabætur að fjárhæð einni milljón auk dráttarvaxta.

Pétur, sem varði sig sjálfur í málinu, krafðist sýknu meðal annars á þeim forsendum að ummælin „séu sönn og þess vegna ekki ærumeiðandi. Stefnandi og félagar hans hafi farið til Brasilíu, skuldir flokksins voru ekki greiddar og fjárframlög frá hinu opinbera voru lögð inn á einkareikning en ekki bankareikning flokksins. Sönn ummæli eru refsi- og vítalaus jafnvel þótt þau séu móðgandi og óþægileg í hugarheimi stefnanda.“

Kostnaður þrátt fyrir litla starfsemi

Í dómnum kemur fram að fé úr sjóðum flokksins hafi vissulega ratað til Kristjáns Snorra, eða fyrirtækis hans Helstirnisins sem og til bróður hans. Eða eins og segir í dómsorði:

„Ljóst er því að bróðir stefnanda og félag sem virðist stofnað utan um einstaklingsrekstur stefnanda höfðu fengið alls 5.320.000 kr. greiddar úr sjóðum flokksins þegar stefndi lét hin umdeildu ummæli falla í samtali við vefmiðilinn Eyjuna 4. júlí 2014. Þótt greiðslur til framkvæmdastjóra flokksins hafi farið fram á grundvelli ráðningarsamnings verður ekki önnur ályktun dregin af vitnisburði hans fyrir dómi, sem og vitnisburði annarra vitna og gögnum málsins, en að starfsemi á vegum Flokks heimilanna hafi verið afar umsvifalítil í kjölfar Alþingiskosninganna 2013 og fram að þeim tíma sem stefndi viðhafði ummælin sem dómkröfur stefnanda lúta að.“

Pétur var sýknaður en Kristján Snorri þarf að greiða honum 650 þúsund krónur í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×