Innlent

Högni breyttist í læðu eftir skoðun tveggja dýralækna

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Þessi fallegi kettlingur hét Kvistur í morgun en nafnið breyttist í Hríslu  þegar það kom í ljós að kettlingurinn var læða.
Þessi fallegi kettlingur hét Kvistur í morgun en nafnið breyttist í Hríslu þegar það kom í ljós að kettlingurinn var læða. Mynd/Agnes Geirdal
Agnes Geirdal á bænum Galtalæk í Bláskógabyggð fór með högna sinn til læknis en hélt heim með læðu. Þó var um að ræða sama köttinn. Í morgun hét kötturinn Kvistur í morgun en hefur nú fengið nafnið Hrísla.

„Þetta er allt mjög fyndið en við Kvistur brugðum okkur á Selfoss í morgun þar sem við áttum pantaðan tíma hjá Dýralæknisþjónustu Suðurlands í Ölfusi. Læknisskoðun, bólusetning, ormahreinsun og örmerking var á dagskrá,“ segir Agnes um það hvernig dagurinn tíðindamikli hófst.

Agnes segir dýralækninn hafa farið mjúkum höndum um snúðinn sinn litla, spurt um nafn og fæðingardag. Svo hafi hann litið upp í munninn og skoðað eyrun.

„Að lokum kíkti hann á afturendann og fór að leita að helsta tákni högna. Dýralæknirinn leit síðan upp sposkur á svip og skundaði fram með prinsinn minn sem breytist í prinsessu þegar hann kom til baka,“ segir Agnes. Annar dýralæknir hafi verið sammála, um var að ræða litla læðu.

„Og heim fór ég kát og glöð með hana Hríslu mína,“ segir Agnes sem deildi sögunni með vinum sínum á Facebook fyrr í dag. Hrísla er fædd 29. nóvember 2015 og kemur frá Vatnsleysu í Biskupstungum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×