Innlent

Umtalsvert tjón eftir bruna í Hveragerði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær. Mynd/Brunavarnir Árnessýslu
Eldur kom upp í garðyrkjustöð í Hveragerði á tíunda tímanum í gærkvöldi. Um er að ræða 3000 fermetra garðyrkjustöð þar sem ræktaðar eru rósir undir raflýsingu. Á vef Brunavarna Árnessýslu kemur fram að ljóst hafi verið þegar slökkviliðsmenn mættu á svæðið að tjón yrði umtalsvert.

Slökkviliðsmenn úr Hveragerði og Selfossi unnu saman að því að slökkva eldinn. Slökkvistarf tók á þriðja tíma.
Eldur logaði í tengibyggingu í miðri garðyrkjustöðinni og voru öll gróðurhúsin full af reyk. Talsverðan tíma tók fyrir slökkviliðsmenn að ráða niðurlögum eldsins þar sem erfitt var að komast að rótum hans.

Skemmdir á rafbúnaði garðyrkjustöðvarinnar eru miklar og má gera ráð fyrir því að ræktunartjón verði allnokkuð þó slökkviliðsmenn séu ekki tilbúnir að fullyrða um það á þessari stundu. Slökkvistarfi lauk um klukkan hálfeitt í nótt en að því komu bæði slökkviliðsmenn úr Hveragerði og Selfossi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×